Erlent

Selenskí var ekki látinn vita af lekanum áður en hann komst í fréttirnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí vildi lítið tjá sig um innihald lekans.
Selenskí vildi lítið tjá sig um innihald lekans. epa/Hollie Adams

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir hvorki Hvíta húsið né hermálayfirvöld vestanhafs hafa látið sig vita af gagnalekanum á dögunum áður en fréttir birtust af honum í fjölmiðlum. Hann segir lekann koma niður á bæði stjórnvöldum í Washington og í Kænugarði.

Meðal skjala sem lekið var voru skýrslur yfirvalda í Bandaríkjum um stöðu mála í Úkraínu, þar sem meðal annars kom fram að Úkraínumenn skorti vopn og skotfæri fyrir fyrirhugaða gagnsókn á vormánuðum. 

Þá virðast gögnin benda til þess að Bandaríkjamenn séu að njósna um háttsetta embættismenn í Úkraínu.

Selenskí sagði í viðtali við Washington Post að það væri ekki þess virði að stofna sambandi Úkraínu og Bandaríkjanna í hættu með því að viðra persónulegar skoðanir sínar á lekanum eða innihaldi gagnanna.

Forsetinn sagðist nú einbeita sér að því að ná aftur því landsvæði sem Rússar hefðu lagt undir sig. Hann neitaði að svara því hvort upplýsingarnar sem leyndust í gögnunum væru réttar, meðal annars um fjölda látinna Úkraínumanna í átökunum sem nú standa yfir.

Vildi hann ekki ræða gögnin efnislega, þar sem það myndi ljá þeim trúverðugleika, en úkraínsk öryggisyfirvöld hafa lýst að minnsta kosti hluta þeirra sem fölsunum.

Umfjöllun Washington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×