Erlent

Konan sem á­sakaði Em­mett Till um á­reitni er látin

Bjarki Sigurðsson skrifar
 Carolyn Bryant Donham var 88 ára gömul þegar hún lést.
Carolyn Bryant Donham var 88 ára gömul þegar hún lést. AP/Gene Herrick

Carolyn Bryant Donham, konan sem sakaði svarta drenginn Emmett Till um að hafa áreitt sig í matvöruverslun árið 1955, er látin, 88 ára að aldri. 

Árið 1955 var Donham að versla í smábænum Money í Mississippi þegar, að hennar sögn, fjórtán ára svartur drengur að nafni Emmett Till flautaði á hana. Seinna sama kvöld var Till rænt af heimili ættingja sinna, lúbarinn og að lokum skotinn í höfuðið. Hann fannst síðan látinn í á í ríkinu. 

Móðir Till ákvað að líkkista hans yrði opin í jarðarförinni svo gestir gætu séð hversu illa hann var laminn af mönnunum. Varð morðið á honum mikilvægur hvati í réttindabaráttu svarts fólks í Bandaríkjunum. 

Tveir menn voru ákærðir fyrir morðið, þáverandi eiginmaður Donham, Roy Bryant, og hálfbróðir hans, J.W. Milam. Dómararnir í málinu, sem voru allir hvítir, sýknuðu mennina af ákærunni. Þeir viðurkenndu þó brot sín í viðtali við Look-tímaritið nokkru síðar. Ekki var hægt að ákæra þá aftur fyrir sama glæp vegna lagaákvæðis í bandarískum lögum. 

Í þáttunum Í ljósi sögunnar var farið vel yfir morðið á Emmett Till.

Donham bjó á hjúkrunarheimili síðustu ár lífs síns. Hún lést á þriðjudagskvöld samkvæmt dánarvottorði sem AP fréttaveitan vitnar í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×