Íslenski boltinn

Besta spáin 2023: Nýir leik­menn þurfa að falla eins og flís við rass

Eins og svo oft áður er erfitt að lesa í lið ÍBV áður en flautað er til leiks á Íslandsmótinu. Erlendir leikmenn koma seint til móts við liðið og þá er erfitt að átta sig á hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið. 

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
ÍBV. Vísir/Bára Dröfn

Eins og svo oft áður er erfitt að lesa í lið ÍBV áður en flautað er til leiks á Íslandsmótinu. Erlendir leikmenn koma seint til móts við liðið og þá er erfitt að átta sig á hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið. 

Venju samkvæmt spáir íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports fyrir um gengi liðanna í Bestu deild kvenna fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst þann 25. apríl með þremur leikjum. Fyrstu umferðinni lýkur svo 26. apríl með tveimur leikjum.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir því að ÍBV lendi í 8. sæti Bestu deildar kvenna í sumar og falli niður um tvö sæti milli ára.

Eyjakonur fengu aðeins 15 gul spjöld á síðustu leiktíð.Vísir/Bára Dröfn

Enn eitt árið mætir ÍBV til leiks með mikið breytt lið og þjálfara, Todor Hristov, sem er að stíga sín fyrstu skref. Mikið mun mæða á Todor enda ekki auðvelt verkefni framundan. 

Sumarið 2022 spilaði ÍBV vonum framar og endaði liðið í 6. sæti Bestu deildar, þó aðeins fjórum stigum á eftir bronsliði Breiðabliks. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og þó Eyjafólk sé bjartsýnt að eðlisfari þá er búist við því að tímabilið í ár verði töluvert strembnara.

Árangur Eyjakvenna í Lengjubikarnum var upp og niður. Líkt og karlaliðið spilaði liðið fjölda leikja á stuttum tíma og því erfitt að lesa í frammistöðu liðsins þar. ÍBV vann tvo af fimm leikjum sínum, skoraði sex mörk og fékk á sig átta stykki.

  • Ár í deildinni: 14. tímabil
  • Besti árangur: 2. sæti (2003, 2004 og 2012)
  • Besti í bikar: Meistarar (2004 og 2007)
  • Sæti í fyrra: 6. sæti í A-deild
  • Þjálfari: Todor Hristov (1. tímabil)
  • Markahæst í fyrra: Kristín Erna Sigurlásdóttir og Olga Sevcova, 5 mörk

Liðið og lykilmenn

ÍBV spilaði nokkuð öflugan varnarleik í Lengjubikarnum og þarf vörnin að halda vel ef liðið ætlar sér að gera betur en spáin segir til um. Eyjakonur hafa sótt liðsstyrk erlendis frá og treysta á að það muni skila mörkum í sumar. 

Þegar kemur að því að sækja erlenda leikmenn þá hefur ÍBV gert vel undanfarin ár. Sagan þarf að endurtaka sig þar sem Íslands- og bikarmeistarar Vals sóttu Hönnu Kallmaier á meðan tveir af erlendu leikmönnum liðsins á síðustu leiktíð eltu Jonathan Glenn, fyrrverandi þjálfara liðsins, til Keflavíkur.

grafík/bjarki

Þeirra í stað eru Holly O'Neill, Caeley Lordemann og Camila Pescatore mættar til Vestmannaeyja. Aðeins sú síðastnefnda var með liðinu í Lengjubikarnum og því er stóra spurningin hversu lengi hinar verða að finna taktinn í Eyjum.

Þó hin 24 ára gamla Caeley Lordemann hafi spilað í efstu deild á Spáni og Bandaríkjunum og verði að öllum líkindum lykilmaður þá á hún enn eftir að sanna sig í deild þeirra bestu; Bestu deildinni. ÍBV mun treysta á leikmenn sem þekkja vel til á Eyjunni fögru í von um að byrja mótið af krafti.

Komn­ar

  • Holly O'­Neill frá Kan­ada
  • Ca­eley Lor­demann frá Banda­ríkj­un­um
  • Camila Pescatore frá Banda­ríkj­un­um
  • Kristjana R. Kristjáns­dótt­ir Sig­urz frá Breiðabliki

Farn­ar

  • Auður S. Scheving í Stjörn­una [var á láni]
  • Hanna Kall­maier í Val
  • Madi­son Wolf­bau­er í Kefla­vík
  • Lavinia Bo­anda til Ítalíu
  • Sandra Voita­ne í Kefla­vík
  • Þór­hild­ur Ólafs­dótt­ir í Kefla­vík

Guðný Geirsdóttir spilaði helming leikja liðsins á síðustu leiktíð en verður aðalmarkvörður ÍBV í sumar. Haley Marie Thomas er að fara inn í sitt annað tímabil í Eyjum og verður áfram fyrirliði liðsins, allavega ef marka má Lengjubikarinn.

Lettneska landsliðskonan Olga Ševcova verður áfram í Eyjum og þarf liðið á mikilvægum mörkum hennar að halda. Þó hún hafi „aðeins“ skorað fimm mörk í Bestu deild kvenna sumarið 2022 þá voru þau hvert öðru mikilvægara. Þrjú þeirra komu í eins marks sigrum og þá skoraði hún tvívegis í 3-0 sigri á Aftureldingu.

  • Guðný Geirsdóttir, 25 ára  markvörður
  • Haley Marie Thomas, 24 ára varnarmaður
  • Olga Ševcova, 30 ára sóknarmaður

Fylgist með

Hin 22 ára gamla Camila Pescatore er vel þess virði að fylgjast með. Hún kemur frá Venesúela en á einnig ættir að rekja til Ítalíu. Þrátt fyrir að vera einkar fjölhæfur leikmaður þá mun Pescatore að öllum líkindum leysa stöðu vinstri bakvarðar í Vestmannaeyjum. Búist er við miklu af henni í Eyjum og ganga sumir eyjaskeggjar svo langt að spá því að hún verði ein sú besta í sinni stöðu á leiktíðinni.

Í besta/versta falli

Þetta er frekar einfalt. Ef allt gengur upp og útlendingarnir falla eins og flís við rass mun ÍBV gera tilkall til þess að enda í efri hluta deildarinnar. Gallinn er að það á við um töluvert af liðum svo ef liðið byrja illa eða lendir í skakkaföllum á einn eða annan hátt gæti það allt í einu verið búið að sogast niður í fallbaráttu.


Tengdar fréttir

Besta spáin 2023: Stutt stopp hjá FH

FH er nýliði í deildinni eftir að hafa farið ósigrað í gegnum 1.deildina. Munurinn á deildunum er hins vegar mikill og því þarf allt að ganga upp hjá Hafnarfjarðarliðinu svo ekki fari illa.

Besta spáin 2023: Skagfirsk sveifla upp og niður

Tindastólskonur sáu til þess í fyrra að fyrsta tímabil liðsins í efstu deild, sumarið 2021, yrði ekki eitthvað einstakt tilvik. Þær eru mættar aftur í deild þeirra bestu en líkt og síðast má búast við þungum róðri í Skagafirði við að halda liðinu uppi.






×