Handbolti

„Úrslitakeppnin, er hún ekki bara byrjuð?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigursteinn Arndal var sáttur með sigurinn á Selfossi.
Sigursteinn Arndal var sáttur með sigurinn á Selfossi. vísir/snædís

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var enn í miðju umróti tilfinninganna þegar hann mætti í viðtal eftir sigur sinna manna á Selfossi í kvöld, 30-29.

„Akkúrat núna líður mér frábærlega að vinna en ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið rólegur,“ sagði Sigursteinn en eftir að leiktíminn var runninn út skaut Einar Sverrisson í stöng úr vítakasti þegar hann gat jafnað fyrir Selfoss. FH hafði verið þremur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir en slapp með skrekkinn.

„Ég veit eiginlega ekki hvað gerðist. Það er þannig ólga inni í mér að ég næ ekki utan um það núna. Hefurðu ekki séð þetta milljón sinnum? Úrslitakeppnin, er hún ekki bara byrjuð?“

FH-ingar voru alltaf með frumkvæðið í leiknum en gekk illa að sigrast á Vilius Rasimas sem átti stórleik í marki Selfyssinga.

„Hann er frábær markvörður og sérstaklega í fyrri hálfleik fórum við illa með góð færi. Við fórum yfir það í hálfleik. Þetta eru tvö frábær lið en við hefðum átt að klára þetta fyrr. En þetta er bara úrslitakeppnin. Þú þarft að vera klár í þetta,“ sagði Sigursteinn.

En hvað var hann sáttastur með hjá sínu liði í kvöld?

„Í rauninni bara að halda alltaf áfram, sama hvað. Við gerðum fullt af mistökum og það voru taugar. Ég er stoltur af mínu liði og mörgum ungum leikmönnum að standast þetta og klára þetta,“ svaraði Sigursteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×