Fótbolti

Viktor Örlygur framlengir við Víkinga

Smári Jökull Jónsson skrifar
Viktor Örlygur og Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga.
Viktor Örlygur og Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkinga. Víkingur

Viktor Örlygur Andrason hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Víkings til ársins 2025 en þetta kemur fram í tilkynnigu sem félagið sendi frá sér í dag.

Viktor Örlygur er uppalinn hjá félginu og spilaði þar upp alla sína yngri flokka. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2016 fyrir Víkinga þegar hann var aðeins 16 ára gamall.

Viktor er einn af lykilmönnum Víkings í Bestu deildinni og varð Íslandmeistari með félaginu sumarið 2021. Hann hefur leikið 135 leiki fyrir félagið og skorað í þeim níu mörk. Þá hefur hann einnig leikið fjóra A-landsleiki og var í verkefni landsliðsins í nóvember síðastliðnum.

Viktor er sjálfur ánægður með nýjan samning og segir það gaman að skrifa undir. Hann er spenntur fyrir komandi sumri en Víkingar unnu 2-0 sigur á Stjörnunni í fyrstu umferð Bestu deildarinnar.

„Ég held þetta verði drulluskemmtilegt. Það er gríðarleg stemmning bæði í hópnum og hjá öllum sem eru að fylgjast með, þeir eru spenntir fyrir sumrinu. Við erum að keppa á mörgum vígstöðum sem er spennandi og ég held að það verði bara drullugaman,“ sagði Viktor Örlygur í samtali sem birt var á Youtubesíðu Víkinga eftir undirskriftina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×