Innlent

Flugvél neyddist til að lenda í Keflavík

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Yfirlitsmynd yfir Keflavíkurflugvöll.
Yfirlitsmynd yfir Keflavíkurflugvöll. Vísir/Vilhelm

Tæknileg bilun varð til þess að flugvél írska flugfélagsins Aer Lingus neyddist til að lenda á Keflavíkurflugvelli síðdegis á miðvikudag. Flugvélin var á leið frá Dublin til Boston.

Fram kemur á vef Dublin Live að vélin hafi verið stödd yfir Atlandshafi þegar flugstjórinn lýsti yfir neyðarástandi og sneri vélinni við. Óskað var eftir öryggislendingu á Keflavíkurflugvelli. Um hafi verið að ræða tæknilega bilun.

Í samtali við Vísi staðfestir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia að vélin hafi lent í Keflavík um hálf þrjúleytið á miðvikudag. Óskað hafi verið eftir öryggislendingu vegna minnkaðs afls í öðrum hreyfli vélarinnar.

Fram kemur á vef Dublin Live að farþegar og áhöfn hafi komist heilu og höldnu frá borði. Önnur flugvél á vegum Aer Lingus lenti á Keflavíkurflugvelli um kvöldið og flutti farþega til baka til Dublin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×