Erlent

Stálu gríðar­legu magni af klinki

Máni Snær Þorláksson skrifar
Tveir lögregluþjónar virða fyrir sér klinkið á bílastæðinu í Fíladelfíu.
Tveir lögregluþjónar virða fyrir sér klinkið á bílastæðinu í Fíladelfíu. Skjáskot/Youtube

Þjófar sem brutust inn í flutningabíl sem lagður var yfir nótt á bílastæði í borginni Fíladelfíu í Bandaríkjunum höfðu á brott með sér gríðarlegt magn af klinki sem var verið að geyma í bílnum. Alls var magnið af klinkinu í bílnum sjö hundruð og fimmtíu þúsund dollara virði en talið er að þjófarnir hafi náð að taka um hundrað þúsund dollara virði með sér.

Þjófnaðurinn var tilkynntur til lögreglu um klukkan 6 um morguninn í gær samkvæmt AP. Bílstjóri flutningabílsins hafði sótt klinkið í myntsláttuna í Fíladelfíu síðastliðinn miðvikudag og átti að fara með það til Flórída-ríkis í gær.

Þegar lögreglumenn mættu á vettvang voru hundruðir smápeninga á víð og dreif um bílastæðið. Yfirvöld eru ennþá að reyna að staðfesta hversu mikið magn af klinki þjófarnir náðu að taka. Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við málið enn sem komið er.

Ekki er enn vitað hvernig þjófunum tókst að taka þetta gríðarlega magn af klinki með sér. Þá er ekki heldur víst hversu margir þjófarnir voru eða hvort þeir hafi vitað að í flutningabílnum væri að finna þetta magn af mynt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×