Umfjöllun: Stjarnan - Víkingur 0-2 | Góður útisigur Víkinga í Garðabæ

Jón Már Ferro skrifar
699F0CF69DB0E588181A1140684F11192812C958228B9695DDCC0AA51F21D65D_713x0
Vísir/Hulda Margrét

Víkingur vann 2-0 útisigur á Stjörnunni þegar liðin mættust í fyrstu umferð Bestu deildar karla á Samsung-vellinum í kvöld.

Nikolaj Hansen og Oliver Ekroth skoruðu mörk Víkinga í sitt hvorum hálfleiknum og tryggðu Víkingum góðan útisigur.

Leikurinn var í jafnvægi til að byrja með. Hvorugt liðið náði völdum á vellinum fyrr en um miðbik fyrri hálfleiks þegar Víkingar létu boltann hvað eftir annað ganga vel í leit að fyrsta markinu. 

Á 31.mínútu var það danski risinn Nikolaj Hansen sem batt enda á frábæra sókn Víkinga. Davíð Örn fékk boltann hægra meginn við teig Stjörnunnar, gaf hættulegan bolta inn að marki heimamanna. Þar tæklaði sá danski boltann yfir línuna.

Stuttu seinna var uppskriftin sú sama nema nú greip Árni Snær, markmaður Stjörnunnar, skalla Nikolaj. Sóknin byrjaði á frábærri skiptingu frá Loga Tómassyni, vinstri bakverði, alla leið yfir á Davíð Örn sem sveiflaði hægri fæti í boltann. 

Á 40.mínútu fengu Víkingar skyndisókn eftir aukaspyrnu Stjörnunnar. Erlingur Agnarsson slapp í gegn eftir stungusendingu Danijel Djuric en Árni Snær sá við Erlingi og hélt Stjörnunni inni í leiknum. 

Rétt fyrir lok seinni hálfleiks fékk Eggert Aron fínt færi, en Ingvar Jónsson varði frá honum. Sóknin var hinsvegar ekki búinn því Víkingar þurftu að bjarga á línu í kjölfarið áður en þeir hreinsuðu boltann í burtu. Þarna hefðu Stjörnumenn getað jafnað leikinn og sett allt í uppnám.

Í seinni hálfleik var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. 

Á 70.mínútu kom sigurmarkið. Sænski miðvörðurinn, Oliver Ekroth, tók boltann í fyrstu snertingu eftir hornspyrnu Pablo Punyed. Frábær afgreiðsla og leikurinn farinn frá Stjörnunni. Eftir þetta settust Víkingar aftarlega á völlinn, lokuðu svæðum og hleyptu heimamönnum hvorki lönd né strönd og unnu á endanum fullkominn sigur.

Af hverju vann Víkingur?

Víkingur sýndi gæði sín í kvöld, bæði sóknarlega og varnarlega. Þeir refsuðu Stjörnunni fyrir að nýta ekki tækifæri sín í leiknum og í lokin þegar Víkingur féll til baka, með 0-2 forystu, þá gáfu þeir engin færi á sér. 

Hverjir stóðu upp úr?

Eftir svona liðsframmistöðu hjá Víkingum er erfitt að taka leikmenn út fyrir sviga. 

Það er hægt að byrja frá aftasta manni. Ingvar Jónsson, markmaður Víkinga, tók margar fyrirgjafir, hvort sem hann sló þær í burtu eða greip boltann. Nokkrum sinnum í leiknum varði hann vel og sýndi það enn og aftur hve góður hann er maður á móti manni.

Varnarlínan var örugg í sínum aðgerðum. Bakverðirnir Davíð Örn Atlason og Logi Tómasson voru góðir varnarlega og sóknarlega. Báðir áttu þeir frábærar sendingar og fyrirgjafir. Davíð lagði meðal annars upp mark.

Miðverðirnir Oliver Ekroth og Halldór Smári voru ekki í neinum vandræðum í dag. Oliver fullkomnaði leik sinn með því að skora seinna mark Víkinga.

Miðja Víkinga með þá Matthías Vilhjálmsson og Pablo Punyed gefur vonandi fyrirheit um það sem koma skal. Miðju tvíeyki sem flest lið væru til í að hafa.

Erlingur Agnarsson og Birnir Snær voru sprækir á köntunum.

Frammi voru Danijel Djuric og Nikolaj Hansen. Hin fullkomna blanda stóra og litla. Danijel flæðandi út um allt og Nikolaj að taka mikið til sín.

Hvað gekk illa?

Stjörnunni gekk illa að brjóta á bak varnarmúr Víkinga undir lokin. Komust ekki nálægt marki gestanna og því fór sem fór.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer í Kaplakrika á laugardag og mætir þar FH-ingum klukkan 17:00. Það er reyndar ekki alveg komið á hreint hvort hægt verði að spila í Kaplakrika. Grasið er langt frá því að vera tilbúið.

Víkingar fá Fylki í heimsókn á sunnudaginn kl 17:00. 

Arnar Gunnlaugsson: „Ég þekki engan dreng sem elskar fótbolta jafn mikið eins og hann“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, hafði góða ástæðu til að fagna í kvöld.

Arnar var ánægður með varnarleik sinna manna. Stjarnan skapaði lítið eftir að hafa lent 0-2 undir.

„Við vorum vanir að spila svona á erfiðum útivelli í Evrópukeppninni í fyrra og mér eina vitið að gera þetta síðustu 10.mínúturnar. Stjarnan hefði getað spilað í þrjá daga án þess að fá færi á móti svona þéttri vörn. Það var líka fínt að gefa Gunnari (Vatnhamar) nokkrar mínútur, kynnast aðeins andrúmsloftinu og kynnast hvað þýðir að spila fyrir Víking í erfiðum leik."

Arnar Gunnlaugsson vill að Danijel Djuric taki betri ákvarðanir með boltann. Sá síðarnefndi fékk þó hrós fyrir spilamennsku sína heilt yfir. Arnar sagði Danijel hafa spila vel líkt og aðrir leikmenn Víkings.

„Hann elskar að klappa boltanum drengurinn. Ég þekki engan dreng sem elskar fótbolta jafn mikið eins og hann. Svo kemur þetta með tíð og tíma. Hann fær tækifæri hjá okkur til að gera misstök og læra af þeim. Á einhverjum tímapunkti þarf hann að fara hugsa næsta skref. Það er ákvörðunartaka, ekki alltaf að klappa boltanum. Það endar bara með að þú ert sparkaður niður."

Fyrra mark Víkinga kom eftir fallegt spil. Eðlilega var Arnar ánægður með það.

„Fyrsta mark okkar er klassískt Víkingsmark. Við náum að færa boltann yfir og svo kemur fylkingin. Þegar fyrirgjöfin kemur er alltaf þrír á móti tveimur á fjærstönginni. Þá er þetta bara stærðfræðilega ómögulegt að verjast svona fyrirgjöfum. Ég var mjög ánægður með fyrsta markið.


Tengdar fréttir

„Ég var eins og lítill krakki inni í klefa í dag

„Þetta var vinnusigur en um leið og við misstum smá einbeitingu sáum við að Stjarnan er gott lið og gátu refsað okkur. Fyrst og fremst ógeðslega sáttur með liðs frammistöðuna og að halda hreinu,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, miðjumaður Víkinga, eftir sigur á móti Stjörnunni á Samsungvellinum í kvöld. Leikið var í fyrstu umferð Bestu deildar karla. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira