Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Afturelding 30-37 | Fjórði deildarsigur Aftureldingar í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Afturelding vann öruggan sigur í kvöld.
Afturelding vann öruggan sigur í kvöld. Vísir/Diego

Afturelding gerði góða ferð á Selfoss en liðið vann sannfærandi 30-37 þegar liðin áttust við í næststíðustu umferð Olís-deildar karla í handbolta í Set-höllinni í kvöld.

Selfyssingar byrjuðu af miklum krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins. Það fór hins vegar fljótt að halla undan fæti hjá heimamönnum og gestirnir úr Mosfellsbæ gengu hægt og bítandi á lagið.

Selfyssingar voru enn þremur mörkum yfir í stöðunni 6-3, en þá skoraði Afturelding fimm mörk í röð og nældi sér í tveggja marka forskot. Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, tók leikhlé þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður til að reyna að stappa stálinu í sína menn og Selfyssingar rönkuðu við sér um stund.

Gestirnir tóku þó aftur forystuna þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og leiddu með fjórum mörkum að honum loknum, staðan 13-17.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks og munurinn hélst í fjórum til fimm mörkum. Selfyssingar virtust þó aldrei líklegir til að ógna forskoti gestanna og þegar líða tók á síðari hálfleikinn fór töpuðum boltum að fjölga á ný hjá heimamönnum.

Mosfellingar þökkuðu pent fyrir sig og röðuðu inn hraðaupphlaupsmörkum, en þar fór Árni Bragi Eyjólfsson fremstur í flokki.

Jafnt og þétt slokknaði á vonarneista Selfyssinga og Afturelding náði mest tíu marka forskoti, fyrst í stöðunni 20-30 þegar rétt rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. Afturelding gat því leyft sér að slaka aðeins á síðustu mínútur leiksins og niðurstaðan varð öruggur sjö marka sigur gestanna, 30-37.

Af hverju vann Afturelding?

Þegar andstæðingar þínir tapa 18 boltum í einum og sama leiknum og þitt lið skorar úr níu hraðaupphlaupum eftir þessa töpuðu bolta er ansi erfitt að tapa handboltaleik. Vörn Aftureldingar stóð vel nánast allan leikinn og það í bland við vandræðagang í sóknarleik Selfyssinga skilaði þessum örugga sigri Mosfellinga.

Hverjir stóðu upp úr?

Árni Bragi Eyjólfsson skoraði 13 mörk fyrir Aftureldingu úr 15 skotum í kvöld og var langmarkahæsti maður vallarins. Þar af skoraði hann átta mörk úr hraðaupphlaupum og getur hann þakkað varnarmönnum liðsins fyrir stóran hluta þeirra marka.

Hvað gekk illa?

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem tapaðir boltar Selfyssinga hafa verið nefndir í þessari umfjöllun en heimamenn köstuðu boltanum frá sér trekk í trekk og færðu gestunum örugga forystu á silfurfati.

Hvað gerist næst?

Lokaumferð deildarkeppninnar í Olís-deild karla er framundan þar sem Afturelding tekur á móti Stjörnunni og Selfoss sækir FH heim. Allir leikir umferðarinnar verða spilaðir samtímis klukkan 16:00 á öðrum degi páska.

Gunnar: Ekki hægt að kvarta yfir neinu

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta er kannski bara rökrétt framhald af síðustu leikjum hjá okkur,“ sagði sigurreifur Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, að leik loknum.

„Við vorum bara solid. Þetta var góð liðsheild, vörnin var góð og að sama skapi skorum við 37 mörk þannig það er ekki hægt að kvarta yfir neinu. Við erum fullir sjálfstrausts og ég er bara ánægður með drengina.“

Þá segir Gunnar að öll þessi hraðaupphlaupsmörk hafi alls ekki skemmt fyrir sínum mönnum.

„Það hjálpar mikið. Við spiluðum góðan varnarleik og refsuðum. Það auðvitað hjálpar mikið að fá þessi hraðaupphlaupsmörk. En svo bara enn og aftur þá var þetta frábær liðsheild í kvöld.“

Gunnar hélt svo áfram að hrósa varnarleiknum sem var vissulega góður, þrátt fyrir að markverðir Aftureldingar hafi ekki klukkað marga bolta.

„Þú sérð það að við erum ekki með mikla markvörslu, en engu að síður er þetta góður sigur og vörnin skapaði mikið af tæknifeilum og við náðum að refsa þeim. Við vissum líka að við þyrftum að vera þolinmóðir og að þeir myndu keyra mikið á okkur. Þeir gerðu það, en við vorum bara þolinmóðir og biðum eftir því að fá þessi tækifæri.“

Auk þess segir Gunnar að Afturelding muni nýta þennan meðbyr sem liðið hefur skapað undanfarnar vikur og taka hann með sér inn í lokaumferð deildarkeppninnar og svo vonandi úrslitakeppnina líka.

„Nú fókusum við bara á það að vinna okkar síðasta leik og sjáum svo hverju það skilar okkur. Það væri gaman ef það væri heimaleikjaréttur, ekki spurning. En aðalatriðið fyrir okkur núna er bara að halda fókus, klára síðasta leikinn og fara á góðu róli inn í úrslitakeppnina.“

Þórir: „Ekki hægt að vinna leik ef við ætlum að bjóða upp á þannig sóknarleik“

Þórir Ólafsson var eðlilega ekki kátur í leikslok.Vísir/Diego

„Stutta skýringin er sú að sóknarleikurinn varð okkur að falli,“ sagði Þóri Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, í leikslok.

„Við erum með einhverja 15-16 tapaða bolta sem eru bara sendingafeilar og við að reyna að troða inn á línu og við fáum á okkur tíu eða tólf hraðaupphlaupsmörk fyrstu 50 mínúturnar. Fyrsta tempó hraðaupphlaup frá Aftureldingu og það er ekki hægt að vinna leik ef við ætlum að bjóða upp á þannig sóknarleik. Varnarleikurinn stóð allt í lagi til að byrja með, en svo vorum við aðeins að prófa 5:1 vörn og að færa okkur aðeins framar, reyna að gera eitthvað í þessu. En sóknarleikurinn varð okkur að falli í dag.“

Varnarleikur Selfyssinga var að einhverju leyti betri en sóknarleikur liðsins, en þó ekkert til að hrópa húrra yfir. Liðið í heild endar með níu löglegar stöðvanir í leiknum, sem er um það bil jafn mikið og liðið fær samtals frá Sverri Pálssyni og Guðmundu Hólmari Helgasyni í hverjum einasta leik þegar þeir eru heilir. Þeir voru hins vegar báðir uppi í stúku í kvöld.

„Á móti Aftureldingu sem eru mjög stórir og „physical“ og við erum greinilega ekki alveg komnir þar, allavega ekki allir okkar leikmenn. En við reyndum aðeins að djöflast í þeim en það var erfitt. Afturelding er á góðum stað og er með frábært lið og vel mannaðir og allt það. Við hefðum bara þurft betri leik í dag.“

Selfyssingar byrjuðu leikinn þó af miklum krafti, en náðu ekki að halda þeim kafla lifandi nógu lengi.

„Þeir hafa kannski verið eitthvað á hælunum til að byrja með. Við náðum að skila mörgum mörkum í seinni bylgjunni okkar og ég var ánægður með það. Við hefðum þurft að ná að halda því betur áfram, en svo náð þeir að skila sér betur til baka og stóðu vörnina bara fantavel á móti okkur. Þannig það var erfitt að komast framhjá þeim.“

Þórir mætir með sína menn í Hafnarfjörðinn næstkomandi mánudag þar sem liði mætir FH í lokaumferð Olís-deildarinnar. Hann segir það mikilvægt að enda deildarkeppnina á jákvæðum nótum.

„Já klárlega. Við bara söfnum orku fyrir næsta leik og mætum á mánudaginn klárir í þann slag,“ sagði Þórir að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira