Erlent

Maðurinn sem rændi Cleo Smith dæmdur í þrettán ára fangelsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Foreldrar Cleo segjast vonast til að hún eigi gott líf framundan.
Foreldrar Cleo segjast vonast til að hún eigi gott líf framundan. epa/James Carmody

Terence Kelly, 37 ára, hefur verið dæmdur í þrettán ára og sex mánaða fangelsi fyrir að hafa rænt hinni fjögurra ára Cleo Smith þar sem hún svaf í tjaldi ásamt fjölskyldu sinni á tjaldsvæði í Vestur-Ástralíu.

Kelly mun afplána að minnsta kosti ellefu ár áður en hann getur sótt um reynslulausn.

Atvikið átti sér stað í október árið 2021, þegar fjölskyldan var að tjalda í um klukkustunda fjarlægð frá heimili sínu í Carnarvon, sem liggur um 900 kílómetra norður af Perth. 

Móðir stúlkunnar sá hana síðast þegar hún vaknaði og bað um að fá vatn að drekka en morguninn eftir var hún horfin ásamt svefnpokanum hennar og tjaldið opið.

Lögreglu tókst að rekja síma Kelly, sem hafði tengt við farsímaturn nálægt tjaldsvæðinu á þeim tíma sem stúlkan hvarf. Hún fannst á heimili hans átján dögum eftir hvarfið, þar sem hún hafði verið skilin eftir ein.

Kelly játaði að hafa tekið stúlkuna og sagðist sjá eftir því. Hann hefði ekki haft í hyggju að halda henni en hann hefði hækkað í útvarpinu til að drekkja hrópum stúlkunnar eftir móður sinni.

Kelly er sagður þjást af taugaskemmdum vegna áfalla í æsku.

Foreldrar Cleo sögðu í yfirlýsingu fyrir dómi að líf þeirra hefði verið „rifið sundur“ og gjörðir Kelly valdið „varanlegu“ áfalli. Þau vonuðust hins vegar til þess að dóttir þeirra ætti gott líf framundan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×