Viðskipti innlent

Kröfur upp á 250 milljónir í þrota­bú Cintamani

Bjarki Sigurðsson skrifar
Cintamani hafði nýverið opnað verslun á Laugavegi 20, þar sem Heilsuhúsið var áður til húsa, þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta.
Cintamani hafði nýverið opnað verslun á Laugavegi 20, þar sem Heilsuhúsið var áður til húsa, þegar félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Vísir/Tumi

Lýstar kröfur í þrotabú Cintamani ehf. námu rúmlega 250 milljónum króna. Engar eignir fundust í búinu og því fékkst engin greiðsla upp í lýstar kröfur. 

Cintamani ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í lok janúar árið 2020. Félagið rak samnefnda útivistarfataverslun en það var stofnað árið 1989. Á árunum 2016 til 2020 var rekstur verslunarinnar reglulega settur í söluferli en tilboðum var ávallt hafnað. 

Tæpum mánuði eftir að félagið varð gjaldþrota tókst að selja reksturinn til félagsins Cinta2020. Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá eru eigendur verslunarinnar Einar Karl Birgisson og Hafdís Björg Guðlaugsdóttir. Einar Karl var um tíma, fyrir gjaldþrotið, framkvæmdastjóri Cintamani en sagðist í viðtali við mbl.is árið 2020 annars ekkert tengjast fyrrverandi eigendum rekstursins. 

Í Lögbirtingablaðinu í dag kemur fram að skiptum í búi Cintamani ehf. sé lokið. Lýstar búskröfur í félagið námu 360 þúsundum króna, lýstar veðkröfur námu tæpum þremur milljónum króna, lýstar forgangskröfur námu 68 milljónum króna og lýstar almennar kröfur 181 milljónum króna. Samtals voru því kröfur upp á rúmlega 250 milljónir króna. 

Engar eignir fundust í búinu og því lauk skiptum þann 31. mars síðastliðinn án þess að greiðsla hafi fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×