Um vanhugsaða lokun borgarinnar á Vin, Hverfisgötu Jón Karl Stefánsson skrifar 3. apríl 2023 07:31 Vin á Hverfisgötu hefur borið nafn með rentu í 30 ár og framsækin starfsemin sem fer fram í húsinu hefur reynst gestum hennar ómetanlegur hluti af daglegu lífi, valdeflingu, bata og vinnu fyrir auknum lífsgæðum. Vin er dagsetur fólks sem glímir við geðrænar áskoranir og hefur það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun, byggja upp félagslegt umhverfi og leiða til valdeflingar og aukinna lífsgæða. Hún er að miklu leyti notendastýrð, þ.e. gestirnir taka sjálfir forystuhlutverk í að móta þá fjölbreyttu starfsemi sem þarna fer fram. Tugir einstaklinga nýta sér þjónustuna dag hvern. Reykjavíkurborg tók við rekstrinum, sem miðað við fjölda notenda er ekki dýr, sumarið 2021 af Rauða Krossinum. Gestir Vinjar vonuðu að með því væri grundvöllurinn fyrir áframhaldandi starfi og frekari þróun tryggð. En nú, einungis einu og hálfu ári síðar, er starfsemin í uppnámi eftir að Borgarfulltrúar samþykktu að leggja starfsemina niður, í vanhugsuðu sparnaðarskyni. Jafningjastuðningur Það er ekki að ástæðulausu að meðal helstu markmiða hjá Vin sé að rjúfa félagslega einangrun. Í íslenskum rannsóknum hefur komið fram að félagsleg einangrun og tilfinning fyrir samfélagslegri útskúfun er viðvarandi meðal fólks sem glímir við geðrænar áskoranir og er sá hluti skorts á lífsgæðum sem veldur einstaklingnum oft mestum andlegum sársauka (Svavarsdóttir o.fl., 2014). Heilbrigð og örugg félagstengsl lykiláhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu, líðan og lífsgæði (Brandt o.fl., 2022). Bein tengsl eru milli félagslegrar einangrunar og tilfinningalegra álagsþátta sem stórauka hættuna á alvarlegum heilsufarsvandamálum, ekki síst geðheilsusjúkdómum á borð við þunglyndi, geðrofs- og fíknisjúkdóma (Mumtaz o.fl., 2018). Svo mikilvæg eru félagsleg tengsl manneskjunni að sé skortur á þeim í barnæsku er mikil hætta á varanlegum skaða á taugakerfinu. Vitað er að ýmis kerfi í heila eru beinlínis háð félagstengslum svo þau geti þroskast eðlilega og við skort getur skaðinn á taugakerfinu orðið mikill, langvarandi og sársaukafullur út lífið. Allt frá því að rannsóknir á áhrifum félagslegrar einangrunar á líf og heilsu hófust fyrir alvöru hefur verið ljóst að besta lækningin við þeim skaða sem einangrun getur haft á okkur er að eiga samskipti við jafningja sem hafa skilning á aðstæðum í öruggu umhverfi sem býður upp á hægfara uppbyggingu trausts, vináttu og samvinnu (Harlow o.fl., 1965; Heim, 2010). Þetta er langt og viðkvæmt ferli sem getur krafist fólks sem hefur djúpan skilning, þolinmæði og reynslu auk umhverfis sem gerir batann mögulegan. Vin verður til Með þetta í huga tóku eldhugar í Rauða krossinum sig saman árið 1993 stofnuðu Vin, athvarf fyrir geðfatlað fólk í Reykjavík. Þetta var fyrsta athvarfið sinnar tegundar á Íslandi sem var beinlínis stofnað til þess að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar félagslegrar einangrunar þessa jaðarsetta hóps. Heilbrigðiskerfið og samfélagið í heild bauð þá ekki upp á slíkt, og hægt er að færa rök fyrir því að lítið hafi þar breyst. Húsnæði fyrir starfsemina fannst í fallegu húsi á Hverfisgötu 47 sem áður hafði hýst starfsemi Kvennaathvarfsins. Fordæmi Vinjar leiddi af sér svipaða starfsemi, meðal annars í Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri og hefur reynst einstaklega vinsæl og happadrjúg meðal notenda hennar. Hugmyndafræðilegan grunn starfsemi Vinjar má rekja til alþjóðlegrar hreyfingar fólks með geðrænar áskoranir sem kölluð var „the psychiatric surviors movement“ (sjá Meyns, 2023). Frá henni eru sprottnar miklar framfarir í réttindamálum á borð við áherslu á valdeflingu, sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti, og áherslu á bata og lífsgæði í stað sjúkdóms. Með tíð og tíma spruttu upp verkefni sem tengdust markmiðum hreyfingarinnar. Meðal þeirra voru einmitt dagsetur og samfélagshús fyrir fólk sem glímir við geðsjúkdóma. Slík notendamiðuð og notendastýrð úrræði hafa reynst gríðarlega áhrifarík í að auka atvinnuþáttöku, virkni og lífsgæði, og að fækka endurinnlögnum (Tjörnstrand o.fl. 2013; sjá ítarlegri umfjöllun Meyns, 2023). Auk áherslu á að draga úr einangrun, byggja upp félagslegt umhverfi og draga úr endurinnlögnum er í Vin lögð áhersla á fræðslu- og batamiðuð verkefni sem mæta þörfum nýrra einstaklinga sem sækja Vin og efla virkni þeirra sem fyrir eru með tilliti til þarfa og áhuga hvers og eins (Rauði Krossinn, 2018). Það sem er helsta einkenni starfsemi Vinjar á Hverfisgötu er sjálfssprottin, notendastýrð virkni af frumkvæði gestanna sjálfra. Meðal þeirra fjöldamörgu verkefna sem hafa þannig sprottið upp er Víðsýn – ferðafélag, sem skipuleggur ferðalög og viðburði fyrir félagsmenn, leikfimi, sjálfshjálparhópar fyrir fólk sem glímir við erfiðar geðrænar áskoranir, listahópar, skákfélag, heimspekifundir, Qi Gong, tölvufræðsla og svo mætti lengi telja. Kannski er samt mikilvægasta starfsemi setursins sú að þar er sameiginlegur málsverður, kaffihittingar og almenn aðstaða til að hittast, ræða málin og funda. Í slíkum óformlegum fundum koma oft mjög mikilvægar lausnir. Að hafa aðgang að fundaraðstöðu og þeim tækjakosti sem safnast hefur í Vin er ómetanlegt. Vin er í samstarfi við Fangelsismálastofnun um samfélagsþjóna. Það samstarf hefur reynst heillasamt fyrir bæði Vin og þá sem bjóða þar um á þjónustu sína. Vin er einnig í nánu samstarfi við Geðsvið og sálfræðiþjónustu Landspítala, ekki síst í samhengi við reglulega fundi geðklofahópsins svokallaða, en það er jafningjahópur sem hittist reglulega í Vin til að ræða um áskoranir og tækifæri. Nýlega hóf Unglingasmiðjan Stígur störf í sama húsi, sem lækkaði meðalaldur þeirra sem reglulega sækja Hverfisgötu 47 umtalsvert. En vegna þess hversu mikill hluti starfseminnar er sjálfssprottinn, og oftar en ekki afrakstur hugmynda sem koma fram án beinnar fyrirætlunar og skipulags að ofan, er hún stundum hvergi skráð í bækur eða skýrslur. Fyrir þá sem einungis rýna í slík gögn er eins og öll þessi starfsemi fari aldrei fram. Hún verður ósýnileg þeim sem ekki þekkja vel til. Þannig getur það sem einmitt er helsti styrkur og fegurð notendastýrðrar þjónustu orðið til vandræða þegar starfsemin þarf að berjast fyrir tilverurétti sínum. Í skriffinskuveldi nútímans er slík frjáls starfsemi í hættu. Reykjavíkurborg tekur við Þjónusta Rauða krossins er viðbragðsmiðuð og hefur meðal annars það hlutverk að koma verkefnum af stað. Þegar verkefnin hafa sannað gildi sitt er ætlunin að aðrir aðilar, s.s. ríki eða sveitarfélög, taki við rekstrinum. Sú varð niðurstaðan sumarið 2021 er Velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstrinum eftir 28 ára vel unnin störf hjá Rauða krossinum. Það var eðlileg krafa að Reykjavíkurborg tæki við, enda hafa sveitarfélög skyldu til að sinna þjónustu við fólk með fötlun. Sú skylda hefur verið tryggð með mikilvægum alþjóðlegum samningum sem borgin hefur skrifað undir. Léttir var yfir gestum og starfsfólki Vinjar er skrifað var undir samning við Reykjavíkurborg sem myndi tryggja rekstrargrundvöll Vinjar. En sú gleði varð skammvinn. Þann 6. desember s.l. var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur þar sem helsta tilefni var að fara yfir tillögur Borgarfulltrúa um sparnað og hagræðingu. Borgin lagði til 92 tillögur til niðurskurðar. Meðal þeirra voru svohljóðandi tillaga: „SBPC-36 Tillaga um Vin dagsetur. Lagt er til að Vin dagsetur verði lagt af en markhópi þjónustunnar mætt með öðru móti á félagsmiðstöðvum borgarinnar. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstri Vinjar dagseturs í júlí 2021 en Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu hafði rekið það áður með samningi við Reykjavíkurborg. Rauði krossinn ákvað að hætta rekstrinum. Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir og er helsta hlutverk Vinjar að draga úr félagslegri einangrun og skapa vinalegt umhverfi fyrir gesti setursins. Þjónusta til að koma til móts við félagsstarf verður útfærð í samráði við Geðhjálp. Samþykkt með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.“ Þannig tók það einungis eitt og hálft ár fyrir Reykjavíkurborg að rjúfa samkomulag sitt við Vin. Dýr sparnaður Heildarkostnaður Reykjavíkurborgar vegna starfsemi Vinjar við Hverfisgötu er áætlaður 47 milljónir króna árlega. Þeir sem telja að þetta sé mikið fé til að reka þá starfsemi sem fer fram í Vin ættu að hafa nokkur atriði í huga. Hið fyrsta er fjöldi þeirra sem þurfa á þeirri þjónustu sem fer fram í Vin að halda til að komast í gegnum erfiðar stundir. Fjöldamargir fá þar mat og ódýra og oft sjálfssprottna þjónustu frá fólki sem það treystir, þekkir og skilur aðstöðu þeirra. Þetta er samfélag jafningja þar sem allir geta verið þeir sjálfir. Hvað myndi slík þjónusta kosta í einkageiranum? Hversu margir munu lenda í félagslegri einangrun sem mun skaða heilsu þeirra, jafnvel varanlega? Hversu langan tíma mun það taka að byggja upp það traust sem nauðsynlegt er til að ná sambærilegum árangri og Vin hefur þegar náð? Hvernig á að fjármagna þá þjónustu sem mun hér eftir þurfa að sækja formlega hjá hinu opinbera, eða hjá einkageiranum? Mun þessi 47 milljóna „sparnaður“ leiða til miklu meiri kostnaðar fyrir notendur, sveitarfélögin og samfélagið almennt eftir því sem tíminn líður? Slík greining hefur ekki farið fram formlega, en hér skal það fullyrt að þessi tegund sparnaðar verður dýr, bæði fjárhagslega og í kostnað fyrir þá einstaklinga sem munu missa Vin sína. Þetta á ekki síst við ef mark er takandi á fullyrðingum Velferðarsviðs um að tryggja eigi notendum Vinjar samsvarandi þjónustu og nú býðst. Verður þá ekki að greiða launakostnað þeirra sem nú skipuleggja starf í sjálfboðavinnu? Munu notendur Vinjar fá sálfræðimeðferð, samtalsmeðferð í jafningjahópum, aðgang að fundaraðstöðu o.s.frv. frá fagfólki með tilheyrandi launa- og skrifstofukostnaði? Fyrir utan þá mannlegu þjáningu sem getur verið aukaverkun slíkrar ákvörðunar að loka Vin, þá er einnig hætta á að kostnaður við samfélagið aukist vegna heilsufarsvandamála sem tengjast félagslegri einangrun. Félagsleg einangrun og einmanaleiki eru ekki einungis kvöl fyrir þá sem þurfa að upplifa, heldur lífshættulegt ástand. Í meta-rannsókn þar sem niðurstöður um 70 rannsókna um áhrif einmanaleika á lífslíkur voru dregnar saman kom í ljós að að öllu öðru jöfnu má búast við því að þeir sem lifa við félagslega einangrun, einmanaleika og búa einir eru um 30% líklegri til að deyja um aldur fram en aðrir (Holt-Lunstad o.fl., 2015). Meðallífslengd þeirra sem geta talist búa við félagslega einangrun er minni en 65 ár. Krónísk félagsleg einangrun veldur alvarlegu álagi á andlega heilsu og hefur einnig verið tengt beint við hjarta- og taugasjúkdóma (Friedler o.fl. 2018). Hér skal það fullyrt að þetta mál hefur ekki verið hugsað til hlítar. Forgangsröðun borgarinnar Vin var ekki eina nauðsynlega starfsemin sem varð fyrir hnífnum eftir hinn afdrifaríka fund Borgarstjórnar, 6. desember s.l. Þegar lesið er yfir meðferðina á þeim 92 tillögum sem lagðar voru til á þessum fundi kemur fram greinileg tilhneiging sem sýnir raunverulega forgangsröðun borgarinnar. Auðvelt reyndist að fá samþykktar tillögur til að skera niður í þjónustu sem gagnast þeim sem minnst mega sín í borginni, en mikill tregi var við að skera niður í stjórnsýslunni og miðstjórninni. Meðal þeirra tillagna sem samþykktar voru var að leggja niður 20 hjúkrunarrými í Seljahlíð, að færa starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, að fella niður reglur um styrki til áfangaheimila, að fækka félagsmiðstöðvum, samfélags- og menningarhúsum, að lækka fjárheimildir til Klettaskóla og Brúarskóla, lækka fjárheimildir til sundkennslu 10. bekkjar, segja upp samningi við sumarbúðir við Úlfljótsvatn, lækka fjárframlög til tónlistarkennslu fyrir fullorðna og skera niður matarinnkaup í leikskólum. Meðal þeirra tillagna sem voru felldar voru sparnaður um 1580 milljónir króna á tækjum og hugbúnaði fyrir þjónustu- og nýsköpunarsvið, að fara í 100 milljón króna hagræðingu á miðlægri stjórnsýslu tengdri skrifstofu borgarstjóra, að lækka rekstrargjöld borgarinnar með minnkun yfirbyggingar, hagræða í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar sem nemur 50 milljónum króna í upplýsinga- og vefdeild, að fækka borgarfulltrúum, að hagræða við skipulag borgarfulltrúa, að fara í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar þar sem flestar ráðningar hafa átt sér stað og mesta þenslan, að ráðast í lækkun útgjalda vegna leigubílaferða, að lækka kostnað vegna utanlandsferða, að fella niður stafrænt ráð, að fella niður starfskostnað borgarfulltrúa um 30,6 milljónir og að lækka fjárframlög til stjórnmálaflokka. Kannski liggur helsti vandinn í þessu. Borgarfulltrúar eru í heildina séð komnir úr tengslum við þá þjónustu sem borgin á að veita. Þeir eru í návígi við og þekkja best áskoranir þeirra sjálfra. Þegar miðstjórnin er farin að skera niður grunnþjónustu beinlínis á kostnað eigin bruðls, þá er ljóst að tími er kominn á róttækar breytingar. Mannréttindi Reykjavíkurborg hefur, eftir á, borið fyrir sér atriði úr mannréttindastefnu sinni fyrir ákvörðun um lokun Vinjar, þá einkum ákvæði um bann við mismunun og um að tryggja beri viðunandi aðgengi. Hvað bann við mismunun varðar, þá er röksemdarfærslan sú að staðir eins og Vin sem leggja svo sérstaka áherslu á ákveðinn hóp, í þessu tilfelli fólk með geðrænar áskoranir, að starfsemin geti talist útilokandi fyrir markhópinn. Notendur og gestir Vinjar hafi þannig rétt til að sækja þjónustu á staði þar sem aðrir samfélagshópar njóta einnig þjónustu. Hvað aðgengi varðar þá er húsnæðið við Hverfisgötu 47 friðað hús og gamalt. Þar er erfitt fyrir t.d. hreyfihamlaða að komast að. Vegna þess að húsið er friðað er það vandkvæðum bundið að bæta úr því aðgengi og tryggja að hið friðaða hús haldi útliti sínu til fulls. Hvorug þessara átylla stenst skoðun og bera þær merki um að vera tilliástæður fyrir því sem í raun og veru er þjónustuskerðing. Hafa þarf í huga að þeir sem nú sækja Vin hafa þegar aðgang að annarri þjónustu á borð við félagsmiðstöðvar, Vitatorg, Samhjálp o.fl. Það að til sé athvarf fyrir hóp fólks með sértæka lífsreynslu og þarfir felur ekki sjálfkrafa í sér mismunun. Ef svo væri þyrfti að loka ýmsum starfsstöðum um land allt (félög eldri borgara, heyrnarlausra o.s.frv.). Meðal mikilvægustu ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er réttur til sjálfsákvörðunar og að hlustað sé á þá einstaklinga sem samningurinn nær til. Gestir Vinjar nýta sér ekki aðstöðuna á Hverfisgötu að ástæðulausu. Könnun sem gerð var meðal reglulegra gesta Vinjar sýndi að um 90% þeirra finnst auðveldara að hafa hádegisverð í Vin sem hluta af rútínu og tilgangi til að fara á fætur. Þau segja að þarna geti þau myndað tengsl vegna umhverfisins sem sé hlýlegt, án þrýstings og þau finni raunverulega fyrir því að vera velkomin. Gestirnir hafa lýst yfir vilja til að halda starfseminni áfram á núverandi stað. Ef ekki verður tekið tillit til þessara viðhorfa gestanna sjálfra er verið að brjóta á þeirra réttindum sem áttu að vera tryggð með mannréttindasáttmála. Hvað aðgengi varðar skal það eitt sagt að þó að það sé áskorunum háð að bæta aðgengi að friðuðu húsi er það augljóslega ekki ómögulegt, þ.e. ef viljinn er fyrir hendi. Eitthvað virðist skorta á þann vilja og gæti það verið rót vandans. Í besta falli fljótfærni Í kjölfar ákvörðunar Borgaryfirvalda um að loka starfsemi Vinjar hefur þegar komið mikið rót á starfsemina. Bæði gestir, sjálfboðaliðar og starfsfólk í Vin hafa þurft að leggjast í mikla vinnu til að koma í veg fyrir lokun. Myndaður hefur verið þverfaglegur starfshópur þar sem gestir, starfsfólk og fulltrúar Borgarinnar hafa komið saman til að leggja fram tillögur um hvernig hægt er að halda starfseminni gangandi. Hér hafa fulltrúar borgarinnar komið að, unnið að heilindum og staðið sig vel. En hvað ráðamenn ætla sér er annað mál. Fólkið í Vin hefur hins vegar ekki fengið viðunandi tíma til að bregðast við þessari skyndiákvörðun borgarinnar og á samráðsfundum kom skýrt fram að þegar hefði hlotist skaði af. Bjarni Kristinn Gunnarsson, sálfræðingur og ráðgefandi aðili í samráðshópi Vinjar, lýsti því t.d. að nærri allir gestir í hinum notendastýrða geðklofahópi lýstu versnandi svefni, auknum kvíðaeinkennum og óöryggi, auknum geðrofseinkennum og meiri notkun lyfja strax í kjölfar ákvörðunar borgarinnar. Bjarni telur mjög skýrt að starfsemi Vinjar í núverandi mynd sé lýsandi dæmi um valdeflandi geðheilbrigðisúrræði, í samræmi við þær stefnur sem hafðar eru að leiðarljósi í uppbyggingu geðþjónustu hjá ríki og sveitarfélögum. Garðar Sölvi Helgason, annar fulltrúi í samráðshópi Vinjar, lýsti ákvörðun Borgarinnar sem stórslysi. Meðal gesta var viljinn skýr: Að halda starfseminni áfram og þróa hana í þeirri mynd sem hún er í dag. Munu Borgaryfirvöld hunsa þennan vilja gestanna? Hér er tekið undir með Garðari og öðrum gestum Vinjar. Borgin er hvött til að leggja af lokun Vinjar tafarlaust svo ekki hljótist meiri skaði af. Ef markmiðið er að flytja starfsemina þá skal það markmið sett skýrt fram og áætlun um slíkan flutning byggjast á velferð gesta Vinjar, ekki sem tilefni niðurskurðar. Sú ákvörðun og það ferli sem henni fylgir þarf að byggja á vandlegri skipulagningu þar sem nægur tími er gefinn til að framkvæmdin verði sem best. Hlusta þarf á gesti Vinjar og taka raunverulega tillit til þeirra sjónarmiða og tillagna sem þeir leggja fram. Annars verður að líta á allt tal um mannréttindi þessa hóps sem fyrirslátt. Höfundur er doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands og aðdáandi starfseminnar sem fer fram í Vin. Tilvísanir Brandt, L, Liu, S., Heim, C., og Heinz, A. 2022. The effects of social isolation stress and discrimination on mental health. Translational Psychiatry, 12, 398. https://www.nature.com/articles/s41398-022-02178-4. Félagsmálaráðuneytið. 2006. Þjónusta við geðfatlað fólk: Stefna og framkvæmdaáætlun vegna átaks félagsmálaráðuneytisins 2006-2010. Sótt frá https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/gedfatladir/thjonusta_gedfatladir_neww_st.pdf Félagsmálaráðuneytið. 2020. Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sótt frá https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Domsmalaraduneytid/Fyrsta%20sk%c3%bdrsla%20%c3%8dslands%20um%20samning%20S%c3%9e%20um%20r%c3%a9ttindi%20fatla%c3%b0s%20f%c3%b3lks%202020.pdf Friedler, B., Crapser, J. og McCullough, L. 2018. One is the deadliest number: the detrimental effects of social isolation on cerebrovascular diseases and cognition. Acta Neuropathologica, 129, bls. 493–509. Harlow, H. F., Dodsworth, R. O., og Harlow, M. K. 1965. Total isolation in monkeys. Psychology, 54, 90-97. Heim, C., Shugart, M., Craighead, W. E., og Nemeroff, C. B. 2010. Neurobiological and psychiatric consequences of child abuse and neglect. Developmental Psychobiology, 52, 671-690. Holt-Lunstad, J., Smith, T. B., Baker, M., Harris, T., og Stephenson, D. 2015. Loneliness and social isolation as risk fators for mortality: A meta-analytic review. Perspectives on psychological Science, 10, 227-237. Mayns, S. 2022. Vin Dagsetur: Service overview in relation to recovery and social inclusion. Grein unnin Mumtaz F, Khan, M.I., Zubair M., Dehpour A. R. 2018. Neurobiology and consequences of social isolation stress in animal model—A comprehensive review. Biomedicine and Pharmacotherapy, 105, 1205–22. https://doi.org/10.1016/j.biopha.2018.05.086 Rauði Krossinn. 2018. Ársskýrsla. Sótt frá https://www.raudikrossinn.is/media/wr5ergsl/arsskyrsla_2018_opnur.pdf Reykjavíkurborg. 2022. Fundargerð: „Borgarstjórn – 6.12.2022. Sótt af https://reykjavik.is/fundargerdir/borgarstjorn-6122022 Svavarsdóttir, S. J., Lindquist, R., and Júlíusdóttir, S. 2014. Mental health services and quality of life. International Journal of Psychosocial Rehabilitation, 18, 72-88. Tjörnstrand C, Bejerholm U, Eklund M. 2013. Participation in Day Centres for People with Psychiatric Disabilities — A Focus on Occupational Engagement. British Journal of Occupational Therapy, 76, 144-150. doi:10.4276/030802213X13627524435225 Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Reykjavík Borgarstjórn Geðheilbrigði Heilbrigðismál Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson skrifar Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir skrifar Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir skrifar Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Jól í sól versus jóla í dimmu Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson skrifar Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson skrifar Skoðun Er janúar leiðinlegasti mánuður ársins? Dagbjört Harðardóttir skrifar Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson skrifar Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar Skoðun Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar Skoðun Skautun eða tvíhyggja? Þóra Pétursdóttir skrifar Skoðun Egóið er í hégómanum Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Grýtt eða greið leið? Þröstur Sæmundsson skrifar Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hugleiðing um listamannalaun III Þórhallur Guðmundsson skrifar Skoðun Dæmalaust mál Sigursteinn Másson skrifar Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason skrifar Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar Skoðun Tækifæri gervigreindar í menntun Páll Ásgeir Torfason skrifar Skoðun Sjálfstæð hugsun á tímum gervigreindar Árni Sigurðsson skrifar Skoðun Framtíð menntunar er í einkarekstri Unnar Þór Sæmundsson skrifar Skoðun Er lítil samkeppni á fjármálamarkaði? Gústaf Steingrímsson skrifar Sjá meira
Vin á Hverfisgötu hefur borið nafn með rentu í 30 ár og framsækin starfsemin sem fer fram í húsinu hefur reynst gestum hennar ómetanlegur hluti af daglegu lífi, valdeflingu, bata og vinnu fyrir auknum lífsgæðum. Vin er dagsetur fólks sem glímir við geðrænar áskoranir og hefur það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun, byggja upp félagslegt umhverfi og leiða til valdeflingar og aukinna lífsgæða. Hún er að miklu leyti notendastýrð, þ.e. gestirnir taka sjálfir forystuhlutverk í að móta þá fjölbreyttu starfsemi sem þarna fer fram. Tugir einstaklinga nýta sér þjónustuna dag hvern. Reykjavíkurborg tók við rekstrinum, sem miðað við fjölda notenda er ekki dýr, sumarið 2021 af Rauða Krossinum. Gestir Vinjar vonuðu að með því væri grundvöllurinn fyrir áframhaldandi starfi og frekari þróun tryggð. En nú, einungis einu og hálfu ári síðar, er starfsemin í uppnámi eftir að Borgarfulltrúar samþykktu að leggja starfsemina niður, í vanhugsuðu sparnaðarskyni. Jafningjastuðningur Það er ekki að ástæðulausu að meðal helstu markmiða hjá Vin sé að rjúfa félagslega einangrun. Í íslenskum rannsóknum hefur komið fram að félagsleg einangrun og tilfinning fyrir samfélagslegri útskúfun er viðvarandi meðal fólks sem glímir við geðrænar áskoranir og er sá hluti skorts á lífsgæðum sem veldur einstaklingnum oft mestum andlegum sársauka (Svavarsdóttir o.fl., 2014). Heilbrigð og örugg félagstengsl lykiláhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu, líðan og lífsgæði (Brandt o.fl., 2022). Bein tengsl eru milli félagslegrar einangrunar og tilfinningalegra álagsþátta sem stórauka hættuna á alvarlegum heilsufarsvandamálum, ekki síst geðheilsusjúkdómum á borð við þunglyndi, geðrofs- og fíknisjúkdóma (Mumtaz o.fl., 2018). Svo mikilvæg eru félagsleg tengsl manneskjunni að sé skortur á þeim í barnæsku er mikil hætta á varanlegum skaða á taugakerfinu. Vitað er að ýmis kerfi í heila eru beinlínis háð félagstengslum svo þau geti þroskast eðlilega og við skort getur skaðinn á taugakerfinu orðið mikill, langvarandi og sársaukafullur út lífið. Allt frá því að rannsóknir á áhrifum félagslegrar einangrunar á líf og heilsu hófust fyrir alvöru hefur verið ljóst að besta lækningin við þeim skaða sem einangrun getur haft á okkur er að eiga samskipti við jafningja sem hafa skilning á aðstæðum í öruggu umhverfi sem býður upp á hægfara uppbyggingu trausts, vináttu og samvinnu (Harlow o.fl., 1965; Heim, 2010). Þetta er langt og viðkvæmt ferli sem getur krafist fólks sem hefur djúpan skilning, þolinmæði og reynslu auk umhverfis sem gerir batann mögulegan. Vin verður til Með þetta í huga tóku eldhugar í Rauða krossinum sig saman árið 1993 stofnuðu Vin, athvarf fyrir geðfatlað fólk í Reykjavík. Þetta var fyrsta athvarfið sinnar tegundar á Íslandi sem var beinlínis stofnað til þess að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar félagslegrar einangrunar þessa jaðarsetta hóps. Heilbrigðiskerfið og samfélagið í heild bauð þá ekki upp á slíkt, og hægt er að færa rök fyrir því að lítið hafi þar breyst. Húsnæði fyrir starfsemina fannst í fallegu húsi á Hverfisgötu 47 sem áður hafði hýst starfsemi Kvennaathvarfsins. Fordæmi Vinjar leiddi af sér svipaða starfsemi, meðal annars í Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri og hefur reynst einstaklega vinsæl og happadrjúg meðal notenda hennar. Hugmyndafræðilegan grunn starfsemi Vinjar má rekja til alþjóðlegrar hreyfingar fólks með geðrænar áskoranir sem kölluð var „the psychiatric surviors movement“ (sjá Meyns, 2023). Frá henni eru sprottnar miklar framfarir í réttindamálum á borð við áherslu á valdeflingu, sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti, og áherslu á bata og lífsgæði í stað sjúkdóms. Með tíð og tíma spruttu upp verkefni sem tengdust markmiðum hreyfingarinnar. Meðal þeirra voru einmitt dagsetur og samfélagshús fyrir fólk sem glímir við geðsjúkdóma. Slík notendamiðuð og notendastýrð úrræði hafa reynst gríðarlega áhrifarík í að auka atvinnuþáttöku, virkni og lífsgæði, og að fækka endurinnlögnum (Tjörnstrand o.fl. 2013; sjá ítarlegri umfjöllun Meyns, 2023). Auk áherslu á að draga úr einangrun, byggja upp félagslegt umhverfi og draga úr endurinnlögnum er í Vin lögð áhersla á fræðslu- og batamiðuð verkefni sem mæta þörfum nýrra einstaklinga sem sækja Vin og efla virkni þeirra sem fyrir eru með tilliti til þarfa og áhuga hvers og eins (Rauði Krossinn, 2018). Það sem er helsta einkenni starfsemi Vinjar á Hverfisgötu er sjálfssprottin, notendastýrð virkni af frumkvæði gestanna sjálfra. Meðal þeirra fjöldamörgu verkefna sem hafa þannig sprottið upp er Víðsýn – ferðafélag, sem skipuleggur ferðalög og viðburði fyrir félagsmenn, leikfimi, sjálfshjálparhópar fyrir fólk sem glímir við erfiðar geðrænar áskoranir, listahópar, skákfélag, heimspekifundir, Qi Gong, tölvufræðsla og svo mætti lengi telja. Kannski er samt mikilvægasta starfsemi setursins sú að þar er sameiginlegur málsverður, kaffihittingar og almenn aðstaða til að hittast, ræða málin og funda. Í slíkum óformlegum fundum koma oft mjög mikilvægar lausnir. Að hafa aðgang að fundaraðstöðu og þeim tækjakosti sem safnast hefur í Vin er ómetanlegt. Vin er í samstarfi við Fangelsismálastofnun um samfélagsþjóna. Það samstarf hefur reynst heillasamt fyrir bæði Vin og þá sem bjóða þar um á þjónustu sína. Vin er einnig í nánu samstarfi við Geðsvið og sálfræðiþjónustu Landspítala, ekki síst í samhengi við reglulega fundi geðklofahópsins svokallaða, en það er jafningjahópur sem hittist reglulega í Vin til að ræða um áskoranir og tækifæri. Nýlega hóf Unglingasmiðjan Stígur störf í sama húsi, sem lækkaði meðalaldur þeirra sem reglulega sækja Hverfisgötu 47 umtalsvert. En vegna þess hversu mikill hluti starfseminnar er sjálfssprottinn, og oftar en ekki afrakstur hugmynda sem koma fram án beinnar fyrirætlunar og skipulags að ofan, er hún stundum hvergi skráð í bækur eða skýrslur. Fyrir þá sem einungis rýna í slík gögn er eins og öll þessi starfsemi fari aldrei fram. Hún verður ósýnileg þeim sem ekki þekkja vel til. Þannig getur það sem einmitt er helsti styrkur og fegurð notendastýrðrar þjónustu orðið til vandræða þegar starfsemin þarf að berjast fyrir tilverurétti sínum. Í skriffinskuveldi nútímans er slík frjáls starfsemi í hættu. Reykjavíkurborg tekur við Þjónusta Rauða krossins er viðbragðsmiðuð og hefur meðal annars það hlutverk að koma verkefnum af stað. Þegar verkefnin hafa sannað gildi sitt er ætlunin að aðrir aðilar, s.s. ríki eða sveitarfélög, taki við rekstrinum. Sú varð niðurstaðan sumarið 2021 er Velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstrinum eftir 28 ára vel unnin störf hjá Rauða krossinum. Það var eðlileg krafa að Reykjavíkurborg tæki við, enda hafa sveitarfélög skyldu til að sinna þjónustu við fólk með fötlun. Sú skylda hefur verið tryggð með mikilvægum alþjóðlegum samningum sem borgin hefur skrifað undir. Léttir var yfir gestum og starfsfólki Vinjar er skrifað var undir samning við Reykjavíkurborg sem myndi tryggja rekstrargrundvöll Vinjar. En sú gleði varð skammvinn. Þann 6. desember s.l. var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur þar sem helsta tilefni var að fara yfir tillögur Borgarfulltrúa um sparnað og hagræðingu. Borgin lagði til 92 tillögur til niðurskurðar. Meðal þeirra voru svohljóðandi tillaga: „SBPC-36 Tillaga um Vin dagsetur. Lagt er til að Vin dagsetur verði lagt af en markhópi þjónustunnar mætt með öðru móti á félagsmiðstöðvum borgarinnar. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar tók við rekstri Vinjar dagseturs í júlí 2021 en Rauði krossinn á höfuðborgarsvæðinu hafði rekið það áður með samningi við Reykjavíkurborg. Rauði krossinn ákvað að hætta rekstrinum. Vin er dagsetur fyrir fólk með geðraskanir og er helsta hlutverk Vinjar að draga úr félagslegri einangrun og skapa vinalegt umhverfi fyrir gesti setursins. Þjónusta til að koma til móts við félagsstarf verður útfærð í samráði við Geðhjálp. Samþykkt með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.“ Þannig tók það einungis eitt og hálft ár fyrir Reykjavíkurborg að rjúfa samkomulag sitt við Vin. Dýr sparnaður Heildarkostnaður Reykjavíkurborgar vegna starfsemi Vinjar við Hverfisgötu er áætlaður 47 milljónir króna árlega. Þeir sem telja að þetta sé mikið fé til að reka þá starfsemi sem fer fram í Vin ættu að hafa nokkur atriði í huga. Hið fyrsta er fjöldi þeirra sem þurfa á þeirri þjónustu sem fer fram í Vin að halda til að komast í gegnum erfiðar stundir. Fjöldamargir fá þar mat og ódýra og oft sjálfssprottna þjónustu frá fólki sem það treystir, þekkir og skilur aðstöðu þeirra. Þetta er samfélag jafningja þar sem allir geta verið þeir sjálfir. Hvað myndi slík þjónusta kosta í einkageiranum? Hversu margir munu lenda í félagslegri einangrun sem mun skaða heilsu þeirra, jafnvel varanlega? Hversu langan tíma mun það taka að byggja upp það traust sem nauðsynlegt er til að ná sambærilegum árangri og Vin hefur þegar náð? Hvernig á að fjármagna þá þjónustu sem mun hér eftir þurfa að sækja formlega hjá hinu opinbera, eða hjá einkageiranum? Mun þessi 47 milljóna „sparnaður“ leiða til miklu meiri kostnaðar fyrir notendur, sveitarfélögin og samfélagið almennt eftir því sem tíminn líður? Slík greining hefur ekki farið fram formlega, en hér skal það fullyrt að þessi tegund sparnaðar verður dýr, bæði fjárhagslega og í kostnað fyrir þá einstaklinga sem munu missa Vin sína. Þetta á ekki síst við ef mark er takandi á fullyrðingum Velferðarsviðs um að tryggja eigi notendum Vinjar samsvarandi þjónustu og nú býðst. Verður þá ekki að greiða launakostnað þeirra sem nú skipuleggja starf í sjálfboðavinnu? Munu notendur Vinjar fá sálfræðimeðferð, samtalsmeðferð í jafningjahópum, aðgang að fundaraðstöðu o.s.frv. frá fagfólki með tilheyrandi launa- og skrifstofukostnaði? Fyrir utan þá mannlegu þjáningu sem getur verið aukaverkun slíkrar ákvörðunar að loka Vin, þá er einnig hætta á að kostnaður við samfélagið aukist vegna heilsufarsvandamála sem tengjast félagslegri einangrun. Félagsleg einangrun og einmanaleiki eru ekki einungis kvöl fyrir þá sem þurfa að upplifa, heldur lífshættulegt ástand. Í meta-rannsókn þar sem niðurstöður um 70 rannsókna um áhrif einmanaleika á lífslíkur voru dregnar saman kom í ljós að að öllu öðru jöfnu má búast við því að þeir sem lifa við félagslega einangrun, einmanaleika og búa einir eru um 30% líklegri til að deyja um aldur fram en aðrir (Holt-Lunstad o.fl., 2015). Meðallífslengd þeirra sem geta talist búa við félagslega einangrun er minni en 65 ár. Krónísk félagsleg einangrun veldur alvarlegu álagi á andlega heilsu og hefur einnig verið tengt beint við hjarta- og taugasjúkdóma (Friedler o.fl. 2018). Hér skal það fullyrt að þetta mál hefur ekki verið hugsað til hlítar. Forgangsröðun borgarinnar Vin var ekki eina nauðsynlega starfsemin sem varð fyrir hnífnum eftir hinn afdrifaríka fund Borgarstjórnar, 6. desember s.l. Þegar lesið er yfir meðferðina á þeim 92 tillögum sem lagðar voru til á þessum fundi kemur fram greinileg tilhneiging sem sýnir raunverulega forgangsröðun borgarinnar. Auðvelt reyndist að fá samþykktar tillögur til að skera niður í þjónustu sem gagnast þeim sem minnst mega sín í borginni, en mikill tregi var við að skera niður í stjórnsýslunni og miðstjórninni. Meðal þeirra tillagna sem samþykktar voru var að leggja niður 20 hjúkrunarrými í Seljahlíð, að færa starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, að fella niður reglur um styrki til áfangaheimila, að fækka félagsmiðstöðvum, samfélags- og menningarhúsum, að lækka fjárheimildir til Klettaskóla og Brúarskóla, lækka fjárheimildir til sundkennslu 10. bekkjar, segja upp samningi við sumarbúðir við Úlfljótsvatn, lækka fjárframlög til tónlistarkennslu fyrir fullorðna og skera niður matarinnkaup í leikskólum. Meðal þeirra tillagna sem voru felldar voru sparnaður um 1580 milljónir króna á tækjum og hugbúnaði fyrir þjónustu- og nýsköpunarsvið, að fara í 100 milljón króna hagræðingu á miðlægri stjórnsýslu tengdri skrifstofu borgarstjóra, að lækka rekstrargjöld borgarinnar með minnkun yfirbyggingar, hagræða í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar sem nemur 50 milljónum króna í upplýsinga- og vefdeild, að fækka borgarfulltrúum, að hagræða við skipulag borgarfulltrúa, að fara í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar þar sem flestar ráðningar hafa átt sér stað og mesta þenslan, að ráðast í lækkun útgjalda vegna leigubílaferða, að lækka kostnað vegna utanlandsferða, að fella niður stafrænt ráð, að fella niður starfskostnað borgarfulltrúa um 30,6 milljónir og að lækka fjárframlög til stjórnmálaflokka. Kannski liggur helsti vandinn í þessu. Borgarfulltrúar eru í heildina séð komnir úr tengslum við þá þjónustu sem borgin á að veita. Þeir eru í návígi við og þekkja best áskoranir þeirra sjálfra. Þegar miðstjórnin er farin að skera niður grunnþjónustu beinlínis á kostnað eigin bruðls, þá er ljóst að tími er kominn á róttækar breytingar. Mannréttindi Reykjavíkurborg hefur, eftir á, borið fyrir sér atriði úr mannréttindastefnu sinni fyrir ákvörðun um lokun Vinjar, þá einkum ákvæði um bann við mismunun og um að tryggja beri viðunandi aðgengi. Hvað bann við mismunun varðar, þá er röksemdarfærslan sú að staðir eins og Vin sem leggja svo sérstaka áherslu á ákveðinn hóp, í þessu tilfelli fólk með geðrænar áskoranir, að starfsemin geti talist útilokandi fyrir markhópinn. Notendur og gestir Vinjar hafi þannig rétt til að sækja þjónustu á staði þar sem aðrir samfélagshópar njóta einnig þjónustu. Hvað aðgengi varðar þá er húsnæðið við Hverfisgötu 47 friðað hús og gamalt. Þar er erfitt fyrir t.d. hreyfihamlaða að komast að. Vegna þess að húsið er friðað er það vandkvæðum bundið að bæta úr því aðgengi og tryggja að hið friðaða hús haldi útliti sínu til fulls. Hvorug þessara átylla stenst skoðun og bera þær merki um að vera tilliástæður fyrir því sem í raun og veru er þjónustuskerðing. Hafa þarf í huga að þeir sem nú sækja Vin hafa þegar aðgang að annarri þjónustu á borð við félagsmiðstöðvar, Vitatorg, Samhjálp o.fl. Það að til sé athvarf fyrir hóp fólks með sértæka lífsreynslu og þarfir felur ekki sjálfkrafa í sér mismunun. Ef svo væri þyrfti að loka ýmsum starfsstöðum um land allt (félög eldri borgara, heyrnarlausra o.s.frv.). Meðal mikilvægustu ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er réttur til sjálfsákvörðunar og að hlustað sé á þá einstaklinga sem samningurinn nær til. Gestir Vinjar nýta sér ekki aðstöðuna á Hverfisgötu að ástæðulausu. Könnun sem gerð var meðal reglulegra gesta Vinjar sýndi að um 90% þeirra finnst auðveldara að hafa hádegisverð í Vin sem hluta af rútínu og tilgangi til að fara á fætur. Þau segja að þarna geti þau myndað tengsl vegna umhverfisins sem sé hlýlegt, án þrýstings og þau finni raunverulega fyrir því að vera velkomin. Gestirnir hafa lýst yfir vilja til að halda starfseminni áfram á núverandi stað. Ef ekki verður tekið tillit til þessara viðhorfa gestanna sjálfra er verið að brjóta á þeirra réttindum sem áttu að vera tryggð með mannréttindasáttmála. Hvað aðgengi varðar skal það eitt sagt að þó að það sé áskorunum háð að bæta aðgengi að friðuðu húsi er það augljóslega ekki ómögulegt, þ.e. ef viljinn er fyrir hendi. Eitthvað virðist skorta á þann vilja og gæti það verið rót vandans. Í besta falli fljótfærni Í kjölfar ákvörðunar Borgaryfirvalda um að loka starfsemi Vinjar hefur þegar komið mikið rót á starfsemina. Bæði gestir, sjálfboðaliðar og starfsfólk í Vin hafa þurft að leggjast í mikla vinnu til að koma í veg fyrir lokun. Myndaður hefur verið þverfaglegur starfshópur þar sem gestir, starfsfólk og fulltrúar Borgarinnar hafa komið saman til að leggja fram tillögur um hvernig hægt er að halda starfseminni gangandi. Hér hafa fulltrúar borgarinnar komið að, unnið að heilindum og staðið sig vel. En hvað ráðamenn ætla sér er annað mál. Fólkið í Vin hefur hins vegar ekki fengið viðunandi tíma til að bregðast við þessari skyndiákvörðun borgarinnar og á samráðsfundum kom skýrt fram að þegar hefði hlotist skaði af. Bjarni Kristinn Gunnarsson, sálfræðingur og ráðgefandi aðili í samráðshópi Vinjar, lýsti því t.d. að nærri allir gestir í hinum notendastýrða geðklofahópi lýstu versnandi svefni, auknum kvíðaeinkennum og óöryggi, auknum geðrofseinkennum og meiri notkun lyfja strax í kjölfar ákvörðunar borgarinnar. Bjarni telur mjög skýrt að starfsemi Vinjar í núverandi mynd sé lýsandi dæmi um valdeflandi geðheilbrigðisúrræði, í samræmi við þær stefnur sem hafðar eru að leiðarljósi í uppbyggingu geðþjónustu hjá ríki og sveitarfélögum. Garðar Sölvi Helgason, annar fulltrúi í samráðshópi Vinjar, lýsti ákvörðun Borgarinnar sem stórslysi. Meðal gesta var viljinn skýr: Að halda starfseminni áfram og þróa hana í þeirri mynd sem hún er í dag. Munu Borgaryfirvöld hunsa þennan vilja gestanna? Hér er tekið undir með Garðari og öðrum gestum Vinjar. Borgin er hvött til að leggja af lokun Vinjar tafarlaust svo ekki hljótist meiri skaði af. Ef markmiðið er að flytja starfsemina þá skal það markmið sett skýrt fram og áætlun um slíkan flutning byggjast á velferð gesta Vinjar, ekki sem tilefni niðurskurðar. Sú ákvörðun og það ferli sem henni fylgir þarf að byggja á vandlegri skipulagningu þar sem nægur tími er gefinn til að framkvæmdin verði sem best. Hlusta þarf á gesti Vinjar og taka raunverulega tillit til þeirra sjónarmiða og tillagna sem þeir leggja fram. Annars verður að líta á allt tal um mannréttindi þessa hóps sem fyrirslátt. Höfundur er doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands og aðdáandi starfseminnar sem fer fram í Vin. Tilvísanir Brandt, L, Liu, S., Heim, C., og Heinz, A. 2022. The effects of social isolation stress and discrimination on mental health. Translational Psychiatry, 12, 398. https://www.nature.com/articles/s41398-022-02178-4. Félagsmálaráðuneytið. 2006. Þjónusta við geðfatlað fólk: Stefna og framkvæmdaáætlun vegna átaks félagsmálaráðuneytisins 2006-2010. Sótt frá https://www.stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/gedfatladir/thjonusta_gedfatladir_neww_st.pdf Félagsmálaráðuneytið. 2020. Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sótt frá https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Domsmalaraduneytid/Fyrsta%20sk%c3%bdrsla%20%c3%8dslands%20um%20samning%20S%c3%9e%20um%20r%c3%a9ttindi%20fatla%c3%b0s%20f%c3%b3lks%202020.pdf Friedler, B., Crapser, J. og McCullough, L. 2018. One is the deadliest number: the detrimental effects of social isolation on cerebrovascular diseases and cognition. Acta Neuropathologica, 129, bls. 493–509. Harlow, H. F., Dodsworth, R. O., og Harlow, M. K. 1965. Total isolation in monkeys. Psychology, 54, 90-97. Heim, C., Shugart, M., Craighead, W. E., og Nemeroff, C. B. 2010. Neurobiological and psychiatric consequences of child abuse and neglect. Developmental Psychobiology, 52, 671-690. Holt-Lunstad, J., Smith, T. B., Baker, M., Harris, T., og Stephenson, D. 2015. Loneliness and social isolation as risk fators for mortality: A meta-analytic review. Perspectives on psychological Science, 10, 227-237. Mayns, S. 2022. Vin Dagsetur: Service overview in relation to recovery and social inclusion. Grein unnin Mumtaz F, Khan, M.I., Zubair M., Dehpour A. R. 2018. Neurobiology and consequences of social isolation stress in animal model—A comprehensive review. Biomedicine and Pharmacotherapy, 105, 1205–22. https://doi.org/10.1016/j.biopha.2018.05.086 Rauði Krossinn. 2018. Ársskýrsla. Sótt frá https://www.raudikrossinn.is/media/wr5ergsl/arsskyrsla_2018_opnur.pdf Reykjavíkurborg. 2022. Fundargerð: „Borgarstjórn – 6.12.2022. Sótt af https://reykjavik.is/fundargerdir/borgarstjorn-6122022 Svavarsdóttir, S. J., Lindquist, R., and Júlíusdóttir, S. 2014. Mental health services and quality of life. International Journal of Psychosocial Rehabilitation, 18, 72-88. Tjörnstrand C, Bejerholm U, Eklund M. 2013. Participation in Day Centres for People with Psychiatric Disabilities — A Focus on Occupational Engagement. British Journal of Occupational Therapy, 76, 144-150. doi:10.4276/030802213X13627524435225
Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar
Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar
Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar
Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar
Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar