Erlent

Sex­tán skipverja danska skipsins saknað eftir sjó­ránið

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myndin er af skipi fyrirtækisins Monjasa.
Myndin er af skipi fyrirtækisins Monjasa. Monjasa

Sextán er enn saknað eftir sjórán á danska olíuskipinu Monjasa Reformer undan ströndum Kongó fyrir viku síðan. Skipið fannst á föstudag.

Leitað hafði verið að skipinu síðustu daga en skipið hvarf af ratsjám þegar sjóræningjar ruddust um borð. Franski sjóherinn fann skipið og hefur fylgt hluta áhafnarinnar til Togo. Skipið er í eigu dansks fyrirtækis en siglir undir fána Líberíu. Áhöfnin er ekki dönsk.

Talið er að sjóræningjarnir muni einnig flytja skipverjana sem rænt var yfir til meginlands Togo. DR greinir frá því að það liggi þó ekki fyrir. Sjóræningjarnir hafi ekki haft samband og krafist lausnargjalds, eins og búist sé við. 

„Núna þurfum við fyrst og fremst að tryggja öryggi áhafnarinnar og koma þeim örugglega til hafnar. Teymi sérfræðinga vinnur að því að undirbúa mögulegar samningaviðræður til að koma þeim, sem rænt hefur verið, aftur heim til fjölskyldna sinna,“ segir Svend Stenberg Mølholt, aðstoðarforstjóri Monjasa, fyrirtækisins sem á og rekur olíuskipið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×