Fótbolti

Landsliðsmenn þakklátir Arnari

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Þór Viðarsson stýrði mörgum af núverandi leikmönnum A-landsliðsins einnig í U21-landsliðinu sem hann kom á EM.
Arnar Þór Viðarsson stýrði mörgum af núverandi leikmönnum A-landsliðsins einnig í U21-landsliðinu sem hann kom á EM. vísir/Jónína og Instagram/@isak.bergmann.johannesson

Nokkrir af leikmönnum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta hafa sent Arnari Þór Viðarssyni þakklætiskveðju á samfélagsmiðlum, í kjölfar þess að Arnar var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara í gær.

Arnar var ráðinn þjálfari A-landsliðsins í lok árs 2020 eftir að hafa gert góða hluti með U21-landslið Íslands og stýrt því inn á lokamót EM.

Hann gaf mörgum ungum leikmönnum tækifæri með A-landsliðinu og þó að árangur liðsins og úrslit undir hans stjórn hafi ekki verið til að hrópa húrra yfir þá eru að minnsta kosti nokkrir af lærisveinum Arnars þakklátir þjálfaranum eins og sjá má á Instagram.

Jón Dagur Þorsteinsson, Rúnar Alex Rúnarsson og Daníel Leó Grétarsson senda honum þar allir þakklætiskveðju og Ísak Bergmann Jóhannesson skrifar:

„Takk fyrir EM U21 og takk fyrir að gefa mér mína fyrstu A-landsleiki. Þú hjálpaðir mér svo óendanlega mikið á fyrstu skrefunum mínum. Þú hefur gefið mér ómetanlega reynslu og ég verð ævinlega þakklátur.“

Andri Lucas Guðjohnsen tekur í sama streng og skrifar: „Takk fyrir allt og sérstaklega mín fyrstu skref með landsliðinu.“

KSÍ hefur nú hafið leit að arftaka Arnars og það kemur svo í ljós á hvaða leikmenn sá þjálfari leggur sitt traust í júní þegar undankeppni EM heldur áfram með afar mikilvægum leikjum við Slóvakíu og Portúgal á Laugardalsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×