Erlent

Eldur kviknaði er lest með etanól og síróp fór af sporinu

Samúel Karl Ólason skrifar
22 vagnar eru sagðir hafa farið af sporinu og fjórtán þeirra eru sagðir hafa borið etanól. Aðrir báru síróp. Vagnarnr loguðu um tíma.
22 vagnar eru sagðir hafa farið af sporinu og fjórtán þeirra eru sagðir hafa borið etanól. Aðrir báru síróp. Vagnarnr loguðu um tíma. AP/KSTP

Lest sem verið var að nota til að flytja etanól og síróp fór af sporinu í Minnesota í morgun. Við það kviknaði mikill eldur svo stór hluti lestarinnar stóð í ljósum logum. Íbúar bæjarins Raymond, sem bú nærri slysinu, þurftu að flýja heimili sín.

Að staðartíma fór lestin af sporinu um klukkan eitt að nóttu til. NBC hefur eftir yfirvöldum að um tuttugu og tveir vagnar lestarinnar hafi farið af sporinu. Fjórtán vagnar eru sagðir hafa borið etanól.

Hús í tæplega kílómetra fjarlægð voru rýmd en engin slys á fólki hafa verið tilkynnt. Þá er ástæða þess að lestin fór af sporinu til rannsóknar.

Staða lestakerfis Bandaríkjanna hefur verið mikið milli tannanna á fólki vestanhafs eftir að lest sem notuð var til að flytja mikið magn eiturefna fór af sporinu nærri Austur-Palestínu í Ohio. Rýma þurfti um helming þess bæjar þegar kveikt var í eiturefnunum.

Íbúar Austur-Palestínu hafa miklar áhyggjur af stöðu mála þar eftir slysið og óttast að eiturefni hafi borist í jarðveg, drykkjarvatn og fleira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×