Lífið

Sjón­varps­maðurinn Paul O‘Grady er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Athygli vakti þegar Kamilla, eiginkona Karls III Bretakonungs, var gestur þáttar O'Grady, For the Love of Dogs, á síðasta ári.
Athygli vakti þegar Kamilla, eiginkona Karls III Bretakonungs, var gestur þáttar O'Grady, For the Love of Dogs, á síðasta ári. Getty

Breski sjónvarpsmaðurinn og grínistinn Paul O‘Grady er látinn, 67 ára að aldri.

Eiginmaður O‘Grady, Andre Portasio, segir í yfirlýsingu að OðGrady hafi andast „óvænt en friðsællega“ í gærkvöldi.

O‘Grady naut mikilla vinsælda á tíunda áratugnum sem dragdrottningin Lily Savage og var í hlutverki hennar þáttastjórnandi spurningaþáttarins Blankety Blank á BBC og fleiri þátta. Síðar átti hann eftir að stjórna nokkum fjölda spjallþátta.

O‘Grady þótti mjög vænt um hunda og stýrði meðal annars þáttunum For The Love of Dogs og Animal Orphans. Athygli vakti þegar Kamilla, eiginkona Karls III Bretakonungs, var gestur þáttarins For the Love of Dogs á síðasta ári.

Hann hafði að undanförnu farið með hlutverk Miss Hannigan á uppsetningu á söngleiknum Annie.

O‘Grady eignaðist dóttur með vinkonu sinni, Diane Jansen árið 1974. Hann gekk svo í málamyndahjónaband með samkynhneigðri konu frá Portúgal árið 1977 en þau skildu árið 2005. Hann giftist svo Portasio árið 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×