Fótbolti

„Virkilega erfitt“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aron Einar á blaðamannafundinum í gær.
Aron Einar á blaðamannafundinum í gær. Vísir/Sigurður Már

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson segir hafa verið gríðarerfitt að horfa á leik Íslands og Bosníu á fimmtudagskvöld. Aron var í leikbanni og sá leikinn af hliðarlínunni.

Aron Einar sat fyrir svörum á blaðamannafundi Íslands í gær og segir það hafa tekið á að geta ekki hjálpað liðinu innan vallar.

„Maður er fyrir utan og sér leikinn aðeins öðruvísi, það var virkilega erfitt að geta ekki verið inn á vellinum og stjórnað og skipulagt, það sem ég er góður í,“ sagði Aron Einar á fundinum í gær.

„Við fórum vel yfir leikinn í gærkvöldi og vitum hvað við þurfum að bæta. Það er slatti af hlutum sem við þurfum að bæta. Það er bara spurning hvernig við bregðumst við, hvernig við komum til baka. Þetta var slæmt tap. 3-0 í fyrsta leik, það er alltaf slæmt,“ sagði Aron enn fremur.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var spurður um hvaða þýðingu það hefði fyrir liðið að endurheimta Aron Einar í Liechtenstein í dag.

„Aron er leiðtogi liðsins. Ekki bara inni á vellinum heldur líka inni á hóteli. Ég fann það strax þegar ég tók við liðinu. Það er rosalega mikilvægt að hafa leiðtoga eins og hann, hann er framlengingarsnúra þjálfarans inni á vellinum. Hann er einn af þeim leikmönnum sem geta breytt leikjum,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×