Viðskipti innlent

Blámi hlýtur hvatningarverðlaun SFS

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorsteinn Másson í Hörpu í dag þar sem verðlaunin voru afhent.
Þorsteinn Másson í Hörpu í dag þar sem verðlaunin voru afhent. SFS

Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma, tók við Hvatningarverðlaunum SFS á ársfundi samtakanna í dag.

Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Markmið Bláma er að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar.

Blámi hefur unnið töluvert að verkefnum tengdum sjókvíaeldi, til dæmis landtengingum og Þorsteinn segir að stutt sé í að við förum að sjá fiskeldisbáta með stórum rafhlöðum og nú sé hægt að keyra skipavélar sem brenna metanoli og það styttist í að hægt sé að keyra vélar á ammoníaki. Blámi hefur einnig unnið með menntastofnunum við að búa fólk undir aðra orkugjafa átta sig á því hvað vélstjórar framtíðarinnar þurfa að kunna.

„Að fá þessi verðlaun hefur rosalega mikla þýðingu og sýnir að við erum á réttri leið. Við munum halda áfram að vinna að raunverulegum verkefnum að reyna að koma einhverju af stað og koma einhverju batterí í gang, koma landtengingum í gang og brenna vistvænu eldsneyti,“ sagði Bolvíkingurinn Þorsteinn á fundinum.

Hann segir margt hafa breyst og er bjartsýnn á framtíðina í orkuskiptum í sjávarútvegi.

„Sjávarútvegsfyrirtækin eru mjög opin fyrir að skoða þetta og taka upp nýjungar. Þau hafa líka verið framarlega í að minnka orkunotkun, hvort sem það er með stærri skrúfum eða léttari hlerum. Og ég veit að þegar þessi nýja tækni verður tilbúin munu þau stökkva á hana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×