Innherji

Gest­ir Bláa lóns­ins verð­a færr­i en fram­legð mun auk­ast um liðlega fjórðung

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins. Bláa lónið

Ferðaþjónusta þarf breytast frá því að einblína á magn í framlegð, rétt eins og sjávarútvegur gerði í kringum 1980, sagði seðlabankastjóri. Forstjóri Bláa lónsins sagði að horft sé til þess í hans rekstri að í ár verði gestir 20-30 prósent færri en framlegðin aukist um 20-30 prósent. „Við erum á þessari vegferð sem stjórnvöld kalla eftir,“ sagði hann.

Menningar- og viðskiptaráðuneytið í samstarfi við Ferðamálastofu og Samtök ferðaþjónustunnar standa fyrir ráðstefnu um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar í gær.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, sagðist skilja áhyggjur stjórnvalda um að ferðaþjónusta myndi að nýju vaxa hömlulaust. „Ég vil ekki standa fyrir slíku. Við viljum geta vaxið en með skipulögðum hætti. Við höfum lært á eigin skinni hvað [hömlulausvöxtur] hefur í för með sér.“

Hann sagði að ferðaþjónusta væri á „allt öðrum stað en fyrir tíu árum“ þegar fyrri vaxtarbylgja reis. Starfsfólk í greininni hafi lært mikið af reynslunni og atvinnugreinin sé betur í stakkbúin til að takast á við þær áskoranir sem séu framundan.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra sagði að ferðaþjónusta hafi „náð til baka um 96% af fyrri getu“ eftir Covid-19 heimsfaraldurinn en heimsmeðaltalið sé um 60-65 prósent. Ferðamenn séu komnir aftur og gistinætur séu fleiri en fyrir faraldur. Það skipti miklu máli að ferðamenn dvelji lengur á landinu í senn til að nýta betur fjárfestingar atvinnugreinarinnar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði uppbygging ferðaþjónustu hérlendis hafi verið jákvæð og bætt lífskjör. „Það var stór hola í íslensku viðskiptalífi eftir ball bankanna sem hún fyllti í.“ Í heimsfaraldrinum hafi komið í ljós að íslenskt hagkerfi þurfi á atvinnugreininni að halda. „Við viljum gjarnan sjá viðskiptaafgang og lítum til ferðaþjónustunnar til að hjálpa okkur.“

Hann sagði að það yrði að hafa í huga hve mikið af ferðamönnum Ísland geti tekið við án neikvæðra aukaverkana, svo sem að upplifun ferðamenn verði slæm og þjóðin verði andsnúin ferðaþjónustu. Þetta sé ekki ósvipað þeirri stöðu sem sjávarútvegur hafi verið í í kringum 1980. Á þeim tíma hafi sjávarútvegur einblínt á að veiða sífellt meira. Vandinn hafi verið að það voru æ fleiri skip að elta æ minni stofna. Það hafi orðið tilefni til hagræðingar og mikillar verðmætaaukningar án þess að veidd tonn hafi aukist.

„Það er ekki tilviljun að við höfum séð mörg sterk framleiðslufyrirtæki vaxa upp samhliða vexti ferðaþjónustu,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.Stöð 2/Ívar

Hann sagði að eitt helsta vandamálið hérlendis, sökum fámennis, væri skortur á stærðarhagkvæmni á næstum öllum sviðum. Fleiri ferðamenn virki eins og fólksfjölgun. Það hafi gert það að verkum að hægt var að byggja upp öflug framleiðslufyrirtæki, svo sem brugghús, sem komi ekki fram í hefðbundnum ferðamannatölum. „Það er ekki tilviljun að við höfum séð mörg sterk framleiðslufyrirtæki vaxa upp samhliða vexti ferðaþjónustu.“

Lilja Dögg sagði að lífskjör verði ekki góð nema þegar það sé viðskiptaafgangur. Það merkir að það streymir meiri gjaldeyri til landsins en frá því. Hún benti á að það hafi ekki verið fyrr en ferðaþjónusta tók að blómstra að það hafi orðið viðskiptaafgangur hérlendis. Sú staða hafi verið nýtt til að byggja upp „góðan gjaldeyrisforða“. Þessi viðsnúningur þýði að við séum ekki að taka lífskjör að láni. „Það styður við allt hagkerfið, öll önnur fyrirtæki í landinu,“ sagði hún.

Lilja Dögg vakti athygli á að nú státaði þjóðarbúið af því að eiga meiri eignir erlendir en skuldir. „Í fyrsta sinn náði Seðlabankinn að byggja upp óskuldsettan gjaldeyriforða,“ sagði hún. Þessi staða leiði líka auk þess til þess að lífeyrissjóðir hafi tök á að fjárfesta erlendis. Það skapi meiri áhættudreifingu fyrir hagkerfið og lífeyrissjóði. Að auki styðji aukin gjaldeyrissköpun við gengi krónu sem auki kaupmátt og lífskjör landsmanna.

Ágangur á náttúruna er alvarlegt vandamál.

Ásgeir sagði að ferðaþjónusta hafi þó haft töluverð ruðningsáhrif á aðra atvinnugreinar, svo sem vegna áhrifa á gengi krónu, leitt til spennu á vinnumarkaði og skort á húsnæði auk þess sem hún hafi skapað álag á innviði. „Ágangur á náttúruna er alvarlegt vandamál.“

Grímur sagði að nú væri baðupplifun efst á lista yfir hvaða þjónustu erlendir gestir nýttu sér hérlendis. Það hafi ekki verið þannig árið 1999 þegar Bláa lónið opnaði á núverandi stað. Bláa lónið hafi því skapað nýja tegund ferðamennsku.

Hann sagði að heilsuferðamennska (e. wellness tourism) væri sá angi ferðamennsku sem væri að vaxa hvað hraðast. Slíkir gestir skilji eftir sig 35 prósent meira fé en meðalferðamaður. Markhópurinn sé kröfuharður, vilji gæði, góða innviði og sterka upplifun. „Það eru mikil tækifæri að sækja fram á þessum markaði.“

Ásgeir sagði að ferðaþjónusta væri góð byggðastefna. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að ferðaþjónusta væri mikilvægur tekjustofn sveitarfélaga um allt land. Hann nefndi að 45 prósent tekjum Mýrdalshrepp mætti rekja til ferðaþjónustu, 15% tekna Grindavíkur og ellefu prósent Borgarbyggðar, níu prósent Hveragerðis og átta prósent hjá Akureyri.

Jane Stacey, forstöðukona ferðaþjónustudeildar OECD, varpaði ljósi á skiptingu innlendra og erlenda ferðamanna í umsvifum ferðaþjónustu. Að meðaltali innan OECD ríkjanna eru innlendir ferðamenn 75 prósent af umsvifum ferðaþjónustunnar. Á Íslandi er þessu öfugt farið: Um 73 prósent af umsvifum íslenskar ferðaþjónustu má rekja til erlendra ferðamanna og 27 prósent til íslenskra. Til samanburðar er hlutfall erlendra ferðamanna 31 prósent í Noregi. Við erum því líkari Portúgal, þar sem hlutfall erlendra ferðamanna er 68 prósent. Hlutfallið er 87 prósent í tilviki Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×