Körfubolti

Aftur getur lið fallið í miðjum leik í Skógarselinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigvaldi Eggertsson og félagar verða bæði að vinna leikinn sinn sem og að treysta á hagstæð úrslit í Smáranum.
Sigvaldi Eggertsson og félagar verða bæði að vinna leikinn sinn sem og að treysta á hagstæð úrslit í Smáranum. Vísir/Bára

ÍR-ingar geta fallið úr Subway deild karla í körfubolta í kvöld og það þótt að þeir vinni leikinn sinn á móti Keflavík.

Fjórir leikir fara fram í Subway deildinni í kvöld og eins og vanalega verða tveir þeirra sýndir beint á Stöð 2 Sport.

Fallbaráttan gæti endað í kvöld og það eru tvær leiðir fyrir ÍR-inga að enda veru sína í deildinni.

Þeir verða að vinna sinn leik en þeir gætu líka fallið í miðjum leik sínum sem fer fram í Skógarselinu í Mjóddinni.

Fyrir tveimur vikum þá voru KR-ingar í sömu stöðu og á sama stað. Þeir mættu þá ÍR í nýja íþróttahúsi ÍR og urðu ekki bara að vinna heldur einnig treysta á önnur úrslit.

KR vann reyndar ÍR og setti ÍR-inga í enn verri mál en KR-liðið féll í miðjum leik þar sem klukkutíma fyrr hófst leikur Stjörnunnar og Breiðabliks í Garðabænum.

  • Fallbaráttan lítur þannig út: (4 stig eftir í pottinum)

  • 10. Höttur 14 stig
  • 11. ÍR 10 stig
  • 12. KR 8 stig - fallið

    * ÍR getur enn náð Hetti þar sem liðin mætast í lokaumferðinni. ÍR þryfti þá ekki bara að vinna heldur einnig vinna upp tíu stiga tap úr fyrri leiknum.

Stjarnan vann þann leik og felldi þar með KR-inga í miðjum leik Vesturbæjarliðsins.

Höttur getur leikið eftir það sem Stjörnumenn gerðu fyrir fjórtán dögum síðan og um leið tryggt sér áframhaldandi sæti í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Höttur hefur aldrei náð að halda sæti sínu því liðið hefur alltaf farið strax niður aftur. Hattarmenn geta endað þá hefð með því að vinna Blikana á heimavelli sínum í Smáranum í kvöld.

Vinni Höttur leikinn á móti Blikum, sem hefst klukkutíma fyrr en leikur ÍR-liðsins, þá falla ÍR-ingar í miðjum leik alveg eins og KR-liðið fyrir tveimur vikum síðan.

Stöð 2 Sport sýndi beint leik Breiðabliks og Hattar klukkan 18.15 og svo leik Grindavíkur og Hauka klukkan 20.15. Tilþrifin verða svo á dagskránni eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×