Fótbolti

„Svo fær maður svekkelsið þegar maður er ekki í hóp“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aron Einar var léttur á fundinum í gær.
Aron Einar var léttur á fundinum í gær. Vísir/Sigurður Már

Aron Einar Gunnarsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi Íslands í gær fyrir leik dagsins við Bosníu. Hann mun þó ekki taka þátt í leiknum.

Aron Einar fékk rautt spjald í leik Íslands við Albaníu í Þjóðadeildinni og mun af þeim sökum vera í leikbanni á morgun. Aron segir skrýtið að undirbúa sig fyrir leik sem hann veit hann muni ekki spila.

„Ég var að hugsa það áðan að ég hef verið að reyna að ímynda mér að ég sé að fara að spila, til þess að fá tilfinninguna. Svo fær maður svekkelsið á morgun þegar maður er ekki í hóp,“ sagði Aron á fundinum í gær.

„Ég er kominn hérna fyrst og fremst fyrir þennan leik til að hjálpa til og undirbúa liðið eins vel og hægt er. Það er svekkjandi að vera ekki með, en maður tekur bara út sitt leikbann fyrir þetta rauða spjald gegn Albaníu og svo mæti ég bara ferskur í Liechtenstein leikinn,“

„Það er eina leiðin til að sjá þetta jákvæðum augum. En ég væri mjög til í að vera á vellinum á morgun að berjast um þrjú stig,“ sagði Aron enn fremur.

Ísland mætir Bosníu klukkan 19:45 annað kvöld í Zenica í Bosníu. Vísir fylgir liðinu eftir og mun lýsa leiknum beint á vefnum auk þess að gera allt saman upp í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×