Fótbolti

Hákon kemur inn vegna höfuðmeiðsla Elíasar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson kemur inn í landsliðshópinn.
Hákon Rafn Valdimarsson kemur inn í landsliðshópinn. Elfsborg.se

Elías Rafn Ólafsson, markvörður Midtjylland og íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, þurfti að draga sig úr landsliðshópnum fyrir komandi leiki við Bosníu og Liechtenstein í undankeppni EM 2024. Hákon Rafn Valdimarsson tekur sæti hans.

Elías Rafn hlaut höfuðhögg á æfingu landsliðsins í Munchen í dag og voru meiðslin þess eðlis að hann getur ekki tekið þátt í leikjunum tveimur sem fram undan eru. Ísland mætir Bosníu á fimmtudagskvöld og Liechtenstein á sunnudag.

Hákon Rafn er markvörður Elfsborgar í Svíþjóð og er 21 árs gamall. Hann hefur leikið með U21 landsliðinu síðustu misseri en tekur nú sæti Elíasar í hópnum.

Auk Hákons eru Rúnar Alex Rúnarsson og Patrik Sigurður Gunnarsson markverðir Íslands í komandi verkefni.

Fastlega er búist við að Rúnar Alex verði í markinu í leikjunum tveimur sem fram undan eru.

Ísland mætir Bosníu á fimmtudag og Liectenstein á sunnudag. Vísir mun fylgja liðinu vel eftir í kringum leikina tvo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×