Erlent

Tókust á við lögreglu og komu í veg fyrir handtöku Imrans Khans

Samúel Karl Ólason skrifar
Stuðningsmenn Imrans Khans haf atekist á við lögregluþjóna í Lahore frá því í gær.
Stuðningsmenn Imrans Khans haf atekist á við lögregluþjóna í Lahore frá því í gær. AP/K.M. Chaudary

Til átaka kom milli lögregluþjóna og stuðningsmanna Imrans Khans, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, þegar þeir fyrrnefndu reyndu að handtaka þann síðarnefnda í gær. Til stóð að handtaka hann fyrir að mæta ekki í dómsal vegna ákæra um spillingu en það reyndist erfitt.

Þegar lögregluþjóna bar að garði við heimili Khans í Lahore í Pakistan voru þar fjölmargir stuðningsmenn hans sem stöðvuðu lögregluþjóna. Við tóku átök sem hafa enn ekki tekið enda og eru rúmlega tíu lögregluþjónar og um 35 mótmælendur sagðir slasaðir.

Einnig hefur komið til mótmæla víðar í Pakistan. Eins og í Karachi, Islamabad og Peshawar, þar sem stuðningsmenn Khans hafa mótmælt því að reynt hafi verið að handtaka hann.

Lögregluþjónar hafa beitt táragasi gegn stuðningsmönnum Khans, sem hafa kastað grjóti og múrsteinum að lögregluþjónum, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Þar segir að yfirvöld séu að senda lögreglunni í Lahore liðsauka svo hægt sé að ljúka umsátrinu um heimili Khans og handtaka hann.

Khan steig út úr húsi sínu í morgun og ræddi við stuðningsmenn sína. Hann sagðist tilbúinn til að fara til Islamabad og mæta í dómsal þann 18. mars en að lögreglan hefði ekki samþykkt það.

Khan, sem tók við embætti forsætisráðherra árið 2018, var komið frá völdum í apríl í fyrra. Hann var í kjölfarið ákærður fyrir spillingu og önnur brot. Khan særðist í skotárás í nóvember þegar maður hóf skothríð á mótmælum í Wazirabad.

Honum hafði verið skipað að mæta í dómsal á síðasta föstudag og svara ásökunum um það að hann hefði selt gjafir sem hann fékk á meðan hann var í embætti forsætisráðherra og um að hann hafði reynt að leyna eignum sínum.

Khan hefur haldið því fram að hann hafi ekki getað ferðast til Islamabada vegna sára sem hann hlaut í áðurnefndri skotárás. Hann fór þó til Islamabad í síðustu viku og fór í þrjá dómsali vegna þriggja mismunandi dómsmála. Hann mætti þó ekki í þann fjórða, þar sem verið var að taka fyrir spillingarmálið.

Khan heldur því fram að hann sé fórnarlamb pólitískra ofsókna. Shahbaz Sharif, núverandi forsætisráðherra, segir það ekki rétt. Dómstólar hafi gefið út handtökuskipun gegn Khan og ekki sé verið að beita hann ofsóknum.

„Við munum handtaka hann og það verður gert samkvæmt dómstólum,“ hefur AP eftir einum yfirmönnum lögreglunnar í Lahore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×