Körfubolti

Hundruðum barna gert að víkja úr Höllinni

Sindri Sverrisson skrifar
Á meðal viðburða sem valda því að börn og unglingar í Laugardal geta ekki æft í Laugardalshöll, einu stóru íþróttahöllinni í þeirra hverfi, eru landsleikir Íslands í handbolta og körfubolta.
Á meðal viðburða sem valda því að börn og unglingar í Laugardal geta ekki æft í Laugardalshöll, einu stóru íþróttahöllinni í þeirra hverfi, eru landsleikir Íslands í handbolta og körfubolta. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Mikil bikarhátíð í handbolta er að hefjast í Laugardalshöll á morgun og stendur hún yfir fram á sunnudag. Á þeim tíma falla niður æfingar hjá hundruðum barna í Laugardal.

Oddur Jóhannsson, körfuboltaþjálfari hjá Ármanni, bendir á þetta á Twitter-síðu sinni. Þar segir hann að samtals 16 æfingahópum í körfubolta hjá Ármanni sé „hent út“ úr Höllinni á meðan bikarhátíðin standi yfir, eða samtals yfir 200 börnum. Þá eru ótaldar æfingar í öðrum íþróttagreinum sem fram hafa farið í Höllinni, á vegum Laugardalsfélaganna Ármanns og Þróttar.

Aðstöðuleysi hefur háð félögunum í Laugardal um langa hríð en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sagt að með nýrri þjóðarhöll, sem stefnan er að rísi í Laugardal árið 2025, muni Ármann og Þróttur geta haft Laugardalshöll út af fyrir sig. Þau muni svo hafa aðgang að þjóðarhöll einnig.

Í sameiginlegri ályktun aðalstjórna Þróttar og Ármanns í síðasta mánuði segir hins vegar að aðstöðuvandi hverfisfélaganna sé bráðamál. Brotthvarf yngri iðkenda vegna skorts á æfingaaðstöðu sé raunverulegt vandamál sem sé að aukast, og að borgaryfirvöld verði að bregðast við strax.

Félögin telja að ný þjóðarhöll muni ekki anna þörf fyrir æfingatíma barna, unglinga og meistaraflokka, og að ljóst sé að iðkendur þurfi að víkja fyrir annarri starfsemi í höllinni rétt eins og staðan sé nú og hafi verið síðustu áratugi varðandi Laugardalshöll. Það sé óviðunandi fyrir félögin.

Oddur segir í færslu sinni að frá áramótum hafi alls 32 æfingadagar fallið niður í Laugardalshöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×