Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, sem heitir IS Haf fjárfestingar, segir við Innherja að haftengd starfsemi á Íslandi sé í hröðum vexti og tækifæri til aukins útflutnings vera mikil.
„Áhrif sjóðsins á þann vöxt verða veruleg þar sem um fjárfestingagetu upp á 30 til 50 milljarða er að ræða þegar tekið er tillit til meðfjárfestinga. Þörf er á að auka samlegð og ná fram frekari stærðarhagkvæmni auk þess að tryggja yfirfærslu á þekkingu meðal fyrirtækja í haftengdri starfsemi. Áfram er öflugt samspil sjávarútvegs- og tæknifyrirtækja forsenda fyrir forskoti Íslands í verðmætasköpun og vexti í greininni.”
Forsvarsmenn sjóðsins, sem hefur þegar tekið til starfa, nefna að Ísland spili leiðandi hlutverk á heimsvísu í sjávarútvegi bæði út frá tækniþróun tengdri greininni, sjálfbærni og arðsemi fiskveiða sem skýrist meðal annars fjárfestingu og nýsköpun í fiskveiðum og vinnslu á síðustu áratugun. Fullnýting sjávarafurða á Íslandi sé þannig einsdæmi og mikil tækifæri liggja í þeim rannsóknum og þekkingu sem býr að baki nýsköpunar í sjávarlíftækni.
Áhrif sjóðsins á þann vöxt verða veruleg þar sem um fjárfestingagetu upp á 30 til 50 milljarða er að ræða þegar tekið er tillit til meðfjárfestinga.
Ytra umhverfið til að fjárfesta í atvinnugreininni er sagt vera hagfellt um þessar mundir. Áætlað er að útflutningstekjur af haftengdri starfsemi munu aukast um 85 prósent á þessum áratug.
Sjóðurinn mun opna aðgengi fyrir lífeyrissjóði og aðra fjárfesta að hröðum vexti í haftengdri starfsemi en aðgengi að fjárfestingum í sjávarútvegi hefur í gegnum tíðina verið takmarkað. Sjóðurinn er sem fyrr segir tíu milljarðar króna að stærð en er hins vegar með aukinn slagkraft þar sem fjárfestum verður boðið að meðfjárfesta samhliða sjóðnum í einstökum fjárfestingarverkefnum.
Fjárfest verður að mestu í óskráðum félögum á Íslandi eða félögum sem hafa tengingu við Ísland. Fjárfestingartímabil sjóðsins er 4 ár og heildarlíftími hans 9 til 11 ár. Þá verður lögð áhersla á haftengdar fjárfestingar á vaxtarskeiði en möguleiki á fjárfestingum á þróunarskeiði. Útganga sjóðsins verður í formi beinnar sölu eða skráningar félaga á markað.
Áætlaður fjöldi fjárfestinga er 8 til 15 og hver fjárfesting að hámarki 20 prósent af heildarstærð sjóðsins en hann hefur sett sér það markmið að skila hluthöfum 20 prósenta ársávöxtun (IRR).
Hafsjór tækifæra fyrir lykilatvinnuveg þjóðarinnar kallar á mikið fjármagn til að styðja við vöxt og nýtingu mögulegra tækifæra.
Fjárfestingum verður dreift meðal fimm flokka innan haftengdrar starfsemi, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni. Þá mun sjóðurinn leitast við að vera áhrifafjárfestir og styðja við vöxt og framþróun þeirra félaga sem fjárfest verður í og leggur sjóðurinn sterka áherslu á að hafa mælanleg áhrif á þætti sem varða umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS þætti) fyrirtækjanna.
Í lykilhlutverki við að brúa bilið milli fjármagns og vaxtartækifæra
Ráðgjafasamningur er á milli Íslandssjóða, sem er rekstraraðili sjóðsins og dótturfélag Íslandsbanka, og Útgerðarfélags Reykjavíkur sem kemur að öflun fjárfestingatækifæra.
Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR sem er kjölfestufjárfestir í Brim með tæplega helmingshlut, segir að félagið sé þeirrar skoðunar að gríðarleg tækifæri verði til staðar fyrir íslenskan sjávarútveg á næstum árum.
„Hafsjór tækifæra fyrir lykilatvinnuveg þjóðarinnar kallar á mikið fjármagn til að styðja við vöxt og nýtingu mögulegra tækifæra. Án fjármagns mun okkur Íslendingum ekki takast að virkja alla þá möguleika sem eru í boði. Sjóðurinn mun verða í lykilhlutverki við að brúa bilið milli fjármagns og vaxtatækifæra okkar allra.“
Auk Runólfs er fjárfestingaráð sjóðsins skipað þeim Kjartani Ólafssyni, stjórnarformanni Arnarlax, Guðbjörg Heiðu Guðmundsdóttur, sem tekur brátt við sem forstjóri Varðar en var framkvæmdastjóri hjá Marel, Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum hjá SFS, og Guðlaug Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Stekks fjárfestingafélags.
Samþykki fjögurra aðila ráðsins þarf til að staðfesta fjárfestingaákvarðanir og eignasölu.
Útgerðafélag Reykjavíkur er með 20 prósenta hlut í sjóðnum á meðan eignarhlutur Brims er 7,6 prósent. Aðrir helstu hluthafar eru Birta og LSR, hvor um sig með 20 prósenta hlut, Frjálsi lífeyrissjóðurinn fer með tæplega 15 prósent og þá er Almenni lífeyrissjóðurinn með 10 prósenta hlut.