Erlent

Robert Blake er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Réttarhöld í máli Roberts Blake vöktu gríðarlega athygli árið 2003 og 2004.
Réttarhöld í máli Roberts Blake vöktu gríðarlega athygli árið 2003 og 2004. AP

Bandaríski leikarinn Robert Blake, sem var á sínum tíma ákærður fyrir morð á eiginkonu sinni en sýknaður, er látinn. Blake varð 89 ára gamall.

Frænka Blake, Noreen Austin staðfestir andlátið í samtali við Deadline og segir hann hafa látist af völdum hjartasjúkdóms í gær.

Blake er þekktastur fyrir leik í glæpaþáttunum Baretta sem framleiddir voru og sýndir í bandarísku sjónvarpi á árunum 1975 til 1978.

Robert Blake árið 1977, á þeim tíma þegar hann lék í þáttunum Baretta.AP

Hann fór jafnframt með hlutverk í fjölda kvikmynda, líkt og Treasure of Sierra Madre þar sem hann lék á móti Humphrey Bogart, og myndinni In Cold Blood frá árinu 1967 sem byggði á samnefndri bók eftir Truman Capote.

Þá vakti hann sömuleiðis athygli fyrir leik sinn í mynd leikstjórans David Lynch, Lost Highway, frá árinu 1997.

Upp úr aldamótum var Blake ákærður fyrir að hafa myrt eiginkonu sína, Bonnie Lee Bakley, sem fannst látin í bíl Blakes fyrir utan veitingastað í Los Angeles í Bandaríkjunum árið 2001. Blake sagði fyrir dómi að hann hafi verið inni á veitingastaðnum til að sækja skammbyssu þegar Bakley var skotin til bana.

Hann var sýknaður í málinu árið 2004 en tapaði síðar einkamáli sem fjölskylda Bakley höfðaði.


Tengdar fréttir

"Baretta" áfrýjar

Bandaríski leikarinn Robert Blake hefur áfrýjað dómsúrskurði þar sem honum var gert að greiða fjölskyldu fyrrverandi eiginkonu sinni 30 milljónir dollara fyrir að myrða hana. Leikarinn var sýknaður fyrir sakadómi en sakfelldur í einkamáli, nokkuð svipað og gerðist með O.J. Simpson. Blake er aðallega þekktur fyrir sjónvarpsþættina Baretta, sem voru vinsælir á seinni hluta síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×