Innlent

Varað við úti­vist og á­reynslu við miklar um­ferðar­götur

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Almenningur er hvattur til að draga úr notkun einkabílsins ef unnt er, til dæmis geyma ferðir sem ekki eru aðkallandi, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.
Almenningur er hvattur til að draga úr notkun einkabílsins ef unnt er, til dæmis geyma ferðir sem ekki eru aðkallandi, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur varar börn og þá sem viðkvæmir eru fyrir í öndunarfærum við útivist og áreynslu við miklar umferðargötur vegna hækkun á styrk svifryks.

Hækkaður styrkur svifryks hefur mælst víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu í dag. Hækkaður styrkur orsakast af því að í dag er hægur vindur í borginni og kalt, götur þurrar og engin úrkoma. Því nær umferðin að þyrla upp ryki sem hangir svo í loftinu þar sem vindhraðinn er of lítill til að færa það á brott. Búist er við að svifryk verði áfram hátt í tengslum við eftirmiðdagsumferðina.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Því er mælst til þess að þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist og áreynslu, svo sem íþróttaiðkun, í nágrenni stórra umferðagatna. 

„Almenningur er hvattur til að draga úr notkun einkabílsins ef unnt er, til dæmis geyma ferðir sem ekki eru aðkallandi, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta,“ segir í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir meiri vindi á morgun og því minni líkur á að þetta verði viðvarandi ástand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×