Erlent

Fallið frá fyrirhugaðri löggjöf um „erlenda aðila“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælendur sögðust vilja tilheyra Evrópu, ekki hverfa aftur til Sovét-tímans.
Mótmælendur sögðust vilja tilheyra Evrópu, ekki hverfa aftur til Sovét-tímans. AP/Zurab Tsertsvadze

Draumaflokkurinn, stærsti þingflokkur Georgíu, hefur ákveðið að draga til baka frumvarp um „erlenda aðila“ eftir hörð mótmæli. Flokkurinn sagðist í yfirlýsingu vilja draga úr átökum í þjóðfélaginu.

Þúsundir mótmæltu frumvarpinu í Tbilisi í gær og í fyrradag og að minnsta kosti 60 voru handteknir við þinghúsið. Óeirðarlögregla var kölluð til og mætti mótmælendum með vatnsbyssum og táragasi.

Gagnrýnendur sögðu fyrirhugaða löggjöf ógn við málfrelsi í landinu en samkvæmt frumvarpinu hefðu allar óopinberar stofnanir og fjölmiðlar sem fá meira en 20 prósent rekstrarfés erlendis frá þurft að skrá sig sem „erlenda aðila“.

Þá bentu stjórnarandstæðingar á að um væri að ræða áþekk lög og sett voru í Rússlandi árið 2012 og hefur ítrekað verið beitt til að þagga niður í gagnrýnisröddum á þarlend stjórnvöld.

Áformin voru enn fremur harðlega gagnrýnd í Bandaríkjunum og Evrópu en Josep Borrell, æðsti yfirmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu, sagði þau ganga gegn gildum sambandsins, sem Georgía vill verða aðili að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×