Lífið

Prinsessa flytur með fjöl­skylduna heim til Sví­þjóðar

Atli Ísleifsson skrifar
Madeleine er yngsta barn Karls Gústafs Svíakonungs og Silvíu drottningar.
Madeleine er yngsta barn Karls Gústafs Svíakonungs og Silvíu drottningar. Linda Broström/The Royal Court of Sweden

Madeleine Svíaprinsessa og eiginmaður hennar, fjárfestirinn Chris O‘Neil, hafa ákveðið að flytja búferlum frá Bandaríkjunum og til Svíþjóðar. Madeleine, Chris og börn þeirra þrjú munu setjast að í Stokkhólmi.

Aftonbladet greinir frá því í dag að þau munu flytja til Svíþjóðar í ágúst þannig að börnin geti byrjað í sænskum skóla þegar nýtt skólaár gengur í garð.

Madeleine prinsessa, Chris O'Neile og börnin Leonore, Nicolas og Adrienne. Anna-Lena Ahlström/The Royal Court of Sweden

Þar segir ennfremur að hjónin hafi sett glæsihús sitt í Flórída á sölu. Þau fluttu til Bandaríkjanna árið 2015.

Hin fertuga Madeleine og hinn 48 ára Chris O‘Neil gengu í hjónaband árið 2013 og eiga saman börnin Leonore, fædda 2014, Nicolas, fæddan 2015 og Adrienne, fædda 2018.

Þau munu flytja inn í íbúð sína á lóð konungsfjölskyldunnar í Stokkhólmi þar sem þau hafa dvalið þegar þau hafa verið í Svíþjóð á síðustu árum.

Sænskt uppeldi

Að sögn Margareta Thorgren, upplýsingafulltrúa sænsku konungsfjölskyldunnar, er ástæða þess að prinsessan Madeleine og eiginmaður hennar ákveði nú að flytja til Svíþjóðar vera að þau vilji að börnin fái sænskt uppeldi.

Ásett verð á húsi þeirra í Flórída er 7,65 milljónir Bandaríkjadala, um 1,1 milljarður króna. Húsið er sagt vera mikið endurnýjað, með sjö svefnherbergjum og átta baðherbergjum, með stórum garði og sundlaug.

Þau keyptu húsið fyrir rúmar þrjá milljónir dala.

Hús Madeleine og Chris O'Neil í Flórída sem þau keyptu árið 2019.Realtor.com





Fleiri fréttir

Sjá meira


×