Erlent

Tveir létust í troðningi á tón­leikum í New York

Atli Ísleifsson skrifar
GloRilla kom fram á Grammyverðlaunahátíðinni í febrúar síðastliðinn.
GloRilla kom fram á Grammyverðlaunahátíðinni í febrúar síðastliðinn. AP

Tveir tróðust undir og létust eftir að mikil ringulreið skapaðist á rapptónleikum í Rochester í New York-ríki á sunnudagskvöld. Einn er alvarlega slasaður.

Atvikið átti sér stað á tónleikum rapparanna GloRilla og Finesse2tymes í Main Street Armory í Rochester. Tónleikastaðurinn tekur um fimm þúsund manns.

Lögregla var kölluð út á staðinn eftir að tilkynningar bárust um skothljóð inni á tónleikastaðnum. Þegar sjúkralið kom á staðinn voru fjölmargir slasaðir en enginn var þó með skotsár.

Frá slysstaðnum. AP

„Það er ekkert sem bendir til að skotið hafi verið úr byssu,“ segir lögreglustjórinn Nicholas Adams. Hann segir fólkið hafa slasast eftir að hafa troðist í átt að neyðarútgöngum.

Bandarískir fjölmiðlar segja 33 ára konu hafa látist af sárum sínum á sunnudaginn, en annar tónleikagestur hafi svo verið úrskurðaður látinn í gær. Enn er einn alvarlega slasaður og þá eru sex til viðbótar með minniháttar meiðsl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×