Skoðun

Tekjur sveitar­fé­laga, ný hugsun til fram­tíðar

Anton Guðmundsson skrifar

Um tekjustofna sveitarfélaga gilda ákvæði laga nr. 4/1995, tekjustofnalögin. Samkvæmt þeim eru tekjustofnar sveitarfélaga útsvar, fasteignaskattur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þá innheimta sveitarfélög gjöld fyrir veitta þjónustu skv. gjaldskrá, s.s. leikskólagjöld, holræsagjöld, vatnsgjald, o.fl., allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Áskilið er að álögð þjónustugjöld séu ekki hærri en raunkostnaður við veitingu viðkomandi þjónustu. Enn fremur hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin fyrirtækjum og stofnunum sem rekin eru í almannaþágu. Þá innheimta sveitarfélög leigutekjur af lóðum sem þau eiga og hafa úthlutað undir byggingar. Sum sveitarfélög hafa tekjur af sölu byggingaréttar eða viðlíka leyfum til bygginga. Í mínum huga liggur fyrir að sveitarfélög þurfa á auknum tekjum að halda. Á ársþingi Sambands íslenskara sveitarfélaga sem haldið var á akureyri í September síðastliðnum var kynnt skýrsla um endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og hve mikil þörf sé fyrir auknum tekjum sveitarfélaga og var talan 20 milljarðar nefnd. Eini skattur sem fyrirtæki greiða beint til sveitarfélaga eru fasteignagjöld, þessu þarf að breyta að mínu mati, Tryggja þarf sterkari rekstrargrundvöll sveitarfélaga vegna þeirra auknu verkefna sem sveitarfélög eru að fást við, nefni ég málefni grunnskóla og málefni fatlaðs fólks sem dæmi sem eru alfarið komin yfir á sveitarfélögin.

Sækja mætti talsverðar tekjur með því að innheimta útsvar af þeim sem eru í rekstri og lifa á fjármagnstekjum, þá á ég ekki við að auka skattheimtuna, heldur að fjármagnstekjuskattur myndi renna bæði til ríkis og sveitarfélaga, þá mætti skattleggja orkumannvirki og færa ýmis opinber gjöld af atvinnurekstri alfarið til sveitarfélaganna. Stærsti þátturinn í þessari tekjuöflun væri leiðrétting á greiðslum til verkefna sem flutt hafa verið frá ríki til sveitarfélaga á undanförnum árum. Við þurfum að kasta við hverjum stein og taka umræðuna og síðan ákvarðanir um þessi mál, Við þurfum að skapa nýja sýn og nýja hugsun til framtíðar í þessum málum.

Höfundur er oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ og formaður bæjarráðs.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×