Handbolti

„Mér finnst Selfoss aftur vera orðinn Selfoss“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Ólafsson tók við Selfossi í sumar.
Þórir Ólafsson tók við Selfossi í sumar. vísir/diego

Sebastian Alexandersson er hrifinn af því sem Þórir Ólafsson hefur gert með lið Selfoss í Olís-deild karla í vetur.

Þórir er á sínu fyrsta tímabili með Selfyssinga en hann tók við þjálfun þeirra af Halldóri Jóhanni Sigfússyni í sumar. Selfoss er í 7. sæti Olís-deildarinnar með nítján stig, líkt og Afturelding og Stjarnan sem eru í sætunum fyrir ofan. 

„Það sem ég er ánægður með er að mér finnst Selfoss aftur vera orðinn Selfoss,“ sagði Sebastian í hlaðvarpi Seinni bylgjunnar í gær.

„Með fullri virðingu fyrir Halldóri Jóhanni, sem er frábær þjálfari, fannst mér ekkert vera neitt rosalega Selfosslegt í kringum þá þegar hann var með þá.“ 

Sebastian er ánægður að sjá unga og efnilega Selfyssinga fá tækifæri með liðinu í Olís-deildinni.

„Þeir eru aftur komnir í það núna, haugur af ungum strákum að fá að spila. Þeir treysta þeim til að spila og þeir skila sínu, kannski ekki í hverjum. En mér finnst frábær að Þórir hafi snúið til baka í prinsippin sem Selfyssingar þekkja,“ sagði Sebastian.

„Þeir eru ekki lengur algjörlega háðir því að Guðmundur Hólmar [Helgason] og Atli Ævar [Ingólfsson] séu með. Raggi Jó er búinn að vera frá allt tímabilið. Ísak [Gústafsson] er að vaxa og þeir eru með strák á eftir honum sem heitir Sölvi [Svavarsson] sem er líka mjög flottur. Þessir strákar verða aldrei betri ef þeir fá ekki tækifæri. Það kemur mér ekkert á óvart að Selfyssingar taki virkilega flotta leiki inni á milli.“

Hlusta má á hlaðvarp Seinni bylgjunnar í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×