Fótbolti

Ronaldo valinn besti leikmaður mánaðarins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo þarf með sama áframhaldi ekki marga leiki til viðbótar til að komast í efsta sætið yfir markahæstu menn deildarinnar.
Cristiano Ronaldo þarf með sama áframhaldi ekki marga leiki til viðbótar til að komast í efsta sætið yfir markahæstu menn deildarinnar. Getty/Stringer

Cristiano Ronaldo var kjörinn besti leikmaður febrúarmánaðar í sádi-arabísku fótboltadeildinni.

Ronaldo tók smá tíma til að finna markaskóna á Arabíuskaganum en hefur raðað inn mörkum að undanförnu.

Ronaldo skoraði átta mörk og lagði upp tvö til viðbótar í fjórum leikjum Al Nassr í febrúar.

Fyrsta mark Ronaldo í febrúar var einmitt hans fyrsta fyrir félagið en það kom í hans þriðja leik 3. febrúar síðastliðinn.

Fjórum dögum eftir 38 ára afmælið þá skoraði hann fernu í 4-0 sigri á Al Wehda og eitt af þeim mörkum var hans fimm hundraðasta deildarmark á ferlinum.

17. febrúar lagði Ronaldo upp bæði mörkin í 2-0 sigri á Al-Taawoun og í síðasta leik mánaðarins þá skoraði hann þrennu i 3-0 sigri á Dalmac.

Ronaldo hefur aðeins spilað fimm leiki í deildinni en er engu að síður aðeins fimm mörkum á eftir markahæsta manni deildarinnar sem er Anderson Talisca, liðsfélagi hans hjá Al Nassr, sem hefur skorað þrettán mörk.

Næsti leikur Al Nassr er á móti Al-Bati á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×