Erlent

Finnski fjölda­morðinginn Juha Valjakkala látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Juha Valjakkala breytti nafninu sínu á sínum tíma í Nikita Bergenström.
Juha Valjakkala breytti nafninu sínu á sínum tíma í Nikita Bergenström. Finnska lögreglan

Finnski fjöldamorðinginn Nikita Bergenström, sem áður gekk undir nafninu Juha Valjakkala, er látinn. Hann varð 57 ára gamall. Valjakkala var á sínum tíma dæmdur fyrir að hafa banað heilli fjölskyldu í kirkjugarði í Svíþjóð árið 1988.

Finnska blaðið Iltalehti greindi frá láti Valjakkala í gærkvöldi. Ekki liggur fyrir hvað dró Valjakkala til dauða.

Valjakkala var á sínum tíma dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa drepið móður, föður og fimmtán ára son þeirra í kirkjugarði í sænska bænum Åmsele í norðurhluta Svíþjóðar árið 1988. Hann skaut fyrst föðurinn og soninn með haglabyssu af stuttu færi í kirkjugarðinum, og skar svo móðurina á háls eftir að hún hafði komið í kirkjugarðinn í kjölfar þess að hafa heyrt skothljóðin.

Juha Valjakkala drap móður, föður og fimmtán ára son þeirra í kirkjugarði í sænska bænum Åmsele árið 1988. Sænska lögreglan

Valjakkala varð fyrst handtekinn ári síðar, árið 1989, og dæmdur í lífstíðarfangelsi vegna morðanna. Honum var sleppt árið 2007 eftir að hafa þá afplánað um tvo áratugi í fangelsi, sem er sérstaklega langur afplánunartími í Finnlandi.

Honum var sleppt árið 2008 en einungis þremur mánuðum síðar var hann handtekinn á ný eftir þrjátíu kílómetra eftirför lögreglu.

Valjakkala hefur ítrekað reynt að flýja úr fangelsi. Árið 1994 tók hann fangavörð í gíslingu og flúði vopnaður úr fangelsi í bíl, en náðist skömmu síðar. Árið 2002 flúði hann úr fangelsinu í Pyhäselkä þegar hann var í dagsleyfi.


Tengdar fréttir

Finnskur fjölda­morðingi á flótta hand­tekinn

Lögregla í Finnlandi handtók í gærkvöldi fangann Juha Valjakkala eftir að hann hafði flúið úr opnu fangelsi. Valjakkala var handtekinn eftir að ábendingar bárust frá almenningi.

Finnar vilja náða morðingja

Svíar eru í uppnámi þar sem Hæstiréttur Finnlands hefur mælt með því að finnski morðinginn Juha Valjakkala, sem myrti mann, konu og ungan son hennar í Svíþjóð árið 1988, verði látinn laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×