Skoðun

Mjólkurafurðir hækka minnst í verði á Íslandi

Erna Bjarnadóttir skrifar

Undanfarið ár hefur verðbólga verið í sögulegum hæðum í nágrannalöndum okkar. Helstu verðbólguvaldar eru þar verð á eldsneyti (þar með talið húshitunarkostnaði) og matvöruverð sem hefur hækkað með ógnarhraða síðastliðið ár.

Evrópusambandið birtir mánaðarlega upplýsingar um verðþróun matvæla á sérstöku mælaborði fyrir fæðuöryggi. Nú hafa birst samræmdar tölur fyrir verðþróun síðastliðna tólf mánuði, miðað við janúar 2023. Það vekur óneitanlega athygli að þegar þær upplýsingar eru bornar saman við þróun matvælaverðs á Íslandi, var aðeins eitt land innan ESB þar sem verð á matvörum hækkaði minna en á Íslandi á þessu tólf mánaða tímabili, Kýpur.

Heimild: ESB: https://agridata.ec.europa.eu/extensions/FoodSecurity/FoodSecurity.html og Hagstofa Íslands

Verðþróun á mjólk, ostum og eggjum

Þegar litið er á einstaka undirliði matvælaverðs kemur í ljós að verð hækkaði minnst á Íslandi í þremur vöruflokkum, brauði og kornvörum, sykri og mjólk, ostum og eggjum. Meðfylgjandi línurit sýnir samanburð fyrir síðasttalda flokkinn fyrir öll lönd ESB auk Íslands. Jafnvel þekkt mjólkurframleiðslulönd eins og Danmörk (21,9%) Holland (28%) og Þýskaland (34%) reynast vera með 67%-174% meiri hækkanir á mjólkurverði en raun var á hér á landi.

Niðurstaða

Þessi samanburður sýnir að flest lönd innan ESB glíma við meiri verðhækkanir á matvælum en Ísland. Þetta á ekki hvað síst við um þann undirflokk matvæla sem innlend framleiðsla hér á landi á hvað mestan hlut í þ.e. mjólk, ostar og egg.

Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×