Skoðun

Fast­eigna­upp­bygging er ó­á­byrg og ekki til þess fallin að þjóna þeim efna­litlu

Vilhelm Jónsson skrifar

Enn og aftur er verkalýðsforustan farin að klifa á ódýrara húsnæðisverði í kjarasamningsviðræðum sem skiptimynd fyrir lágtekjufólk. Það mun væntanlega sem fyrr ekkert vanta upp á loforðaflauminn hjá stjórnvöldum að skrifa undir enn eina viljayfirlýsinguna sem er vart pappírsins virði.

Til að hagkvæmt fasteignarverð verði til staðar þarf vitræn uppbygging að eiga sér stað ásamt fjármálaumhverfi þar sem ábyrgir aðilar véli með slíkar ákvarðanir en ekki stjórnmálamenn, sem geta vart stýrt sjálfum sér. Einnig þarf þjóðin að stöðva þá rányrkju sem bankar og aðrar lánastofnanir ástunda fyrir tilverknað óhæfra stjórnmálamanna.

Það er löngu orðið tímabært að dregið sé úr óraunhæfum byggingakröfum og regluverki, ekki síst félagslegs húsnæðis, sem stenst alltof oft enga skoðun, og sá listi er langur. Eigi að nást að vinda ofan af húsnæðisúrræðum ætti hið opinbera ekki að koma nærri þeirri úrvinnslu eða skipa til þeirra verka. Það er ekki nóg að stjórnvöld viti að of hröð og sveiflukennd uppbygging skapar óstöðugleika ásamt skorti á vinnuafli, heldur þurfa þau að bregðast við vandanum.

Það er óforsvaranlegt að byggingaréttur á venjulegu einbýlishúsi liggi í 50 milljónum, og vart byrjað á byggingunni. Það er líka galið og óheyrilega dýrt að húsbyggjendur skuli þurfa að þvera borgina úr vestri austur fyrir fjall upp í Bolöldur (hálfa leið í Hveragerði) eða Álsnes til að losa uppgröft fyrir húsagrunnum. Síðan skilur enginn neitt í neinu að götur borgarinnar séu undirlagðar af skít sem rennur frá vöruflutningabifreiðum í rigningatíð ásamt að ýta enn frekar undir umferðatafir, kolefnisójöfnuð og byggingakostnað.

Iðnaðarmenn sem og aðrir byggingaaðilar geta skammtað sér nánast hvað laun sem er í skjóli þenslu. Það skiptir nánast engu hvar komið er niður, samfélagið er á villigötum og drifið áfram af lántökum, stjórnleysi og græðgi. Eigi að vera hægt að takast á við núverandi húsnæðisskort og byggingakostnað þarf hugarfarsbreyting að eiga sér stað og skynsemi að ráða för.

Sé ekki hægt að ná vitrænu samkomulagi við borgina og nágrannasveitarfélög um hagfellt lóðarframboð til að kostnaðarauki fari síður úr böndunum væri eðlilegast að ríkið ásamt lífeyrissjóðum stæðu að sérstöku átaksverkefni fyrir t.d. þrjú til fimm þúsund manna hverfi. Slík byggð gæti jafnvel verið á jaðri borgarmarkanna. Eðlilegast væri að leita tímabundið út fyrir landsteinana að ódýrara vinnuafli til að slá á þensluhvetjandi vanda og snara upp húsnæði á einu til tveimur árum á sem hagkvæmasta hátt og undir eðlilegu eftirliti. Útsjónarsemi og góð útfærsla þarf ekki alltaf að vera kostnaðarsöm til að vel til takist, einnig þarf að tryggja að gettóhverfi skapist ekki. Vellukkuð hverfi víðsvegar um heiminn gætu verið fyrirmynd. En eigi að vera hægt að halda byggingakostnaði niðri er tímabært að byggingar og verkfræðistofur komi þar sem minnst nærri.

Rekstur félagslegra leiguíbúða, samanber Bjarg og systurfélög sem rekin eru fyrir tilstuðlan verkalýðs- og stéttarfélaga, ásamt að hafa fengið niðurfellingu ríkis og sveitarfélaga, er vart annað en tálsýn. Að ætla sér að reyna að byggja ódýrt félagslegt húsnæði í bullandi þenslu stenst enga skoðun. Verkamannabústaðakerfið sáluga snerist fljótt upp í misnotkun til að stuðla að atvinnuuppbyggingu. Eflaust eru einhverjir sem telja rétt að endurvekja verkamannabústaðakerfið í upprunalegri mynd þótt sú sýn hafi brugðist endanlega með verðtryggingu lána 1979, og var lagt nokkrum árum síðar niður.

Væntanlega getur fasteignarfélagið Bjarg skaffað eitthvað ódýrari félagslegar íbúðir sem eru niðurgreiddar með opinberu fé. Sé litið til allra þátta þá eru þessir fermetrar alltof dýrir þegar grannt er skoðað og oft á tíðum illa skipulagðar kytrur og fylgir þeim óraunhæfir búsetu- og lánaskilmálar. Eðlilega er fasteignarfélagið Bjarg ekki að gefa eitt eða neitt, og allra síst á uppgangstímum. Stjórnvöld og verkalýðsfélög hafa verið iðin við að stæra sig af framangreindri uppbyggingu, sem er fokdýr sé litið til allra þátta. Það er vart liðið nema á annað ár síðan félagið fékk lækkun á vöxtum þar sem uppbyggingin var ósjálfbær.

Svokölluð hlutabótalán sem áttu að bjarga þeim efnaminni um kaup á ódýru félagslegu húsnæði voru og eru lítið annað en tálsýn til að slá ryki í augu verkalýðshreyfingarinnar og almennings. Lágtekjufólki á almennum markaði stendur sjaldnast slík fyrirgreiðsla til boða nema í besta falli þegar um ákveðnar nýbyggingar er að ræða og oft fylgja kvaðir sem standast enga skoðun þegar á reynir.

Hugsanlega mætti í einstaka tilfellum með geðþóttaákvörðun HMS endurskoða verklagið utan borgarmarkanna. Það yrði HMS ekki til framdráttar ef verklag og áherslur stofnunar kæmu fram í dagsljósið og ekki síst varðandi hlutabótalánsloforð til þeirra efnaminni. Tilvitnun: umsækjanda var synjað um hlutabótalán á nýlegri þriggja herbergja íbúð þótt söluverð væri langt undir byggingakostnaði á þeim forsendum að það samræmdist ekki reglum HMS að lána til notaðra eigna. Það er löngu orðið tímabært að flett sé ofan af verklagi stofnunar og ekki síst eftir áratuga sorgarsögu og brotlendingar Íbúðalánasjóðs sem og verkamannabústaða.

Notað eldra húsnæði þarf að vera valkostur hjá þeim efnaminni. Það er óumdeilanlegt að nýtt húsnæði er umtalsvert dýrara en notað og örugglega sé litið til fasteignaverðs á landsbyggðinni. Forustusauðir HMS þrákálfast við að skilja að notað húsnæði getur þjónað sumu lágtekjufólki mun betur og þarf að vera valmöguleiki. Það væri hægt að líkja verklaginu við að ríkið niðurgreiddi matarmiða til aðstoðar þeirra sem minnst mega sín með þeim kvöðum að miðarnir nýttust eingöngu í dýrustu matvörubúðinni.

Ódýrt félagslegt húsnæði sem er byggt í bullandi þenslu stenst enga skoðun. Sú félagslega húsnæðisuppbygging sem hefur átt sér stað í gegnum fasteignafélagið Bjarg, fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar, er of dýr og vart annað en tálsýn. Starfsemin er drifin áfram af óskhyggju og ekki sjálfbær til lengri tíma litið hverjum hún eigi að þjóna.

Uppbygging félagslegs kerfis á engu að síður fullan rétt á sér með hagkvæmum og ábyrgum hætti. Það er löngu tímabært að fleiri húsnæðisúrræði og valmöguleikar séu í boði fyrir þá efnaminni. Sveitarfélög þurfa að hætta að nýta sér ófarir þeirra sem minna mega sín til að viðhalda atvinnuskapandi uppbyggingu. Stjórnvöld og sveitarfélög ber að standa undir lögboðnum og félagslegum skyldum sínum, ekki síst gagnvart þeim sem eiga allt sitt undir að vel sé að verki staðið.

Stjórnvöldum ber að stýra atvinnulífi með þeim hætti að eðlilegt jafnvægi og stöðugleiki ríki. Það er kominn tími til að kafað verði ofan í þá óstjórn sem þrífst í landinu sem stjórnvöld stæra sig af sem miklu hagvaxtaskeiði.Með samstilltu átaki má vinda ofan af áratugaóstjórn og rányrkju í boði stjórnvalda. Til slíkra verka þarf annað og meira en ríkisstjórn Íslands og handónýtan gjaldmiðil.

Höfundur er athafnamaður




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×