Skoðun

Standast tilraunir á föngum skoðun?

Arndís Vilhjálmsdóttir skrifar

Undirrituð fagnar þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á hugmyndir dómsmálaráðherra um tilraunir hugvíkkandi efna á föngum. Tillögurnar eru merki um skammsýni og vanþekkingu ráðherrans á flóknum vandamálum fanga. 

Fjöldi fanga glímir við heimilisleysi, rofin fjölskyldubönd og langa sögu um vímuefnavanda. Rannsóknir sýna okkur að stór hluti er með taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og margir hafa stutta skólagöngu að baki. Í Bandaríkjunum er oft talað um að fangelsin séu í raun orðnar stærstu geðdeildirnar. 

Þótt staðan sé ekki jafn alvarleg hér á landi vistast þó að hverjum tíma einstaklingar í fangelsi með alvarlega geðsjúkdóma, sem ættu í raun að fá þjónustu í heilbrigðiskerfinu frekar en dvelja í réttarvörslukerfinu. 

Að mati undirritaðrar er óljóst hvernig psilocybin eigi að leysa ofangreindan vanda. Þó finna megi ákveðinn samnefnara í aðstæðum fanga þá er þetta langt frá því að vera einsleitur hópur eins og látið er í ljós. Nærtækast væri að móta heildstæða stefnu í málum fanga með því að tryggja þeim farsæla endurkomu í samfélagið. Svo sem með húsnæði, finna málum þeirra farveg innan heilbrigðiskerfisins svo eitthvað sé nefnt. 

Margar siðferðislegar spurningar vakna einnig þegar talað er um tilraunir á föngum. Getur frelsissviptur einstaklingur veitt upplýst samþykki? Hver er valdamismunurinn á fanganum og þeim sem óskar eftir þátttöku hans í tilraunum sem þessum? Hver og hvernig á að velja inn í rannsóknina? 

Í raun minnir umræðan um tilraunir á föngum einna helst á vafasamar tilraunir sem gerðar voru á jaðarsettum einstaklingum fyrir tíma vísindasiðanefnda og almennrar umræðu um réttindi fólks.

Höfundur er geðhjúkrunarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×