Umfjöllun og viðtöl: Fram - Haukar 22-14 | Hafdís mögnuð í sigri Fram

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Hafdís Renötudóttir var öflug í dag.
Hafdís Renötudóttir var öflug í dag. Vísir/Hulda Margrét

Fram vann stórsigur á Haukum á heimavelli í dag. Markvarsla beggja megin er það sem hélt leiknum gangandi en Hafdís Renötudóttir, markvörður Fram, var stórkostleg með 65% markvörslu. Fram var með forystu alveg frá fyrstu mínútu og sigraði að lokum með átta mörkum. Lokatölur í Úlfarsárdal 22-14.

Hafdís Renötudóttir var klárlega maður leiksins en hún var með 26 varða bolta en þar af varði hún fimm skot úr vítum. Einnig átti Margrét Einarsdóttir í marki Hauka mjög góðan leik en hún var með 14 varin skot sem skilaði henni tæpri 40% markvörslu.

Leikurinn fór hratt af stað hjá Fram en eftir tæpar tíu mínútur var liði komið í 4-0 forystu. Haukar skoruðu sitt fyrsta mark á áttundu mínútu en gekk hægt að koma sér í gang en vöknuðu þær þó aðeins til lífsins eftir að Ragnar Hermannsson tók leikhlé. Þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum var staðan 6-4 fyrir Fram en þær héldu góðri forystu út allan fyrri hálfleikinn. Þegar fyrri hálfleikur var flautaður af var staðan 11-7.

Haukar gáfu verulega í í upphafi síðari hálfleiks en eftir rúmar fimm mínútur hafði þeim tekist að minnka muninn í eitt mark í stöðunni 12-11. Það var nóg til þess að kveikja neistann í Fram því þær skoruðu næstu fjögur mörk leiksins. Fram spilaði virkilega sterkan leik í síðari hálfleik enda Hafdís Renötudóttir gjörsamlega búin að loka rammanum. Var það Haukakonum um megn. Staðan í síðari hálfleik einnig 11-7 og því lokaniðurstöður 22-14.

Afhverju vann Fram?

Fram var klárlega sterkara liðið í dag. Þrátt fyrir að hafa ekki verið með sóknarleikinn 100% í dag tókst þeim þó að spila virkilega góðan handbolta. Mikið var um tapaða bolta og nýttu Framkonur sér það. Þær spiluðu einnig mjög góða vörn og eins og fram hefur komið var markvarslan alveg hreint frábær.

Hverjar stóðu upp úr?

Markahæst í liði Fram í dag var Steinunn Björnsdóttir með fimm mörk. Perla Ruth Albertsdóttir var næst markahæst með fjögur mörk en hún átti einnig virkilega góðan leik í vörninni með átta lögleg stopp. Kristrún Steinþórsdóttir var einnig fín í vörninni. Hafdís Renötudóttir stóð þó að mestu upp úr í dag.

Margrét Einarsdóttir var frábær í markinu hjá Haukum þrátt fyrir tap. Ena Car átti fínan leik en hún var markahæst með þrjú mörk fyrir Hauka og fimm löglegar stöðvanir í vörninni. Elín Klara Þorkelsdóttir var einnig með þrjú mörk.

Hvað gekk illa?

Það var margt sem gekk illa í leiknum í dag. Fyrst og fremst voru tapaðir boltar alltof algengir í leiknum, beggja megin vallarins. Sóknarleikur Hauka gekk virkilega illa og áttu þær erfitt með að finna færi. Sóknarleikur Fram gekk einnig brösulega á köflum en þær nýttu þó færin sín mun betur. Það sem var einnig ábótavant í leiknum var stuðningur áhorfenda en staðfestar tölur voru 101 áhorfandi en því miður heyrðist lítið í stúkunni og hefði stuðningur mátt vera meiri. Sérstaklega hjá áhorfendum Fram.

Hvað gerist næst?

Næstu helgi fara fram leikir hjá íslenska landsliðinu og því komin tæp tveggja vikna pása í deildinni hjá liðunum. Næsti deildarleikur Hauka er á heimavelli föstudaginn 10. mars en þá fá þær ÍBV í heimsókn sem hafa verið á svakalegri sigurgöngu síðustu vikur. Laugardaginn 11. mars mun Fram leggja leið sína yfir heiðina þar sem þær mæta Selfossi.

Stefán Arnarsson: Maður á ekki að tapa leik þegar markvarslan er svona góð

„Ég er alltaf ánægður að vinna. Það var kominn tími á sigur hjá okkur þannig ég er ánægður.“ Hafði Stefán að segja um sigurinn í dag.

„Hafdís [Renötudóttir] var nátturlega frábær og maður á ekki að tapa leik þegar markvarslan er svona góð. En við getum horft líka jákvætt á töpuðu boltana, þeir voru helmingi færri en í síðasta leik. Það er framför en við verðum að minnka tapaða bolta.“

Stefán gefur skipanir í dag.Vísir/Hulda Margrét

Stefáni fannst vanta örlítið upp á sóknarleik Fram í dag.

„Mér fannst sóknarleikurinn ganga vel fyrstu 15 mínúturnar en síðan fór að hökta síðustu 15 í fyrri hálfleik. Við byrjuðum illa sóknarlega en svo afþví að Hafdís [Renötudóttir] varði og svona þá datt svolítið sjálfstraustið af Haukum og þá fórum við að fá ódýr mörk. En við þurfum að gera betur sóknarlega.“

„Lykillinn að sigrinum var að við spiluðum ágætis varnarleik. Við eigum nú samt að geta spilað betri varnarleik en þetta. En Hafdís [Renötudóttir] var frábær og með svona markvörslu á ekki að vera hægt að tapa leik.“

„Við erum í 4. sæti og við verðum bara að horfa fram í næstu tvo mánuði og við erum að reyna að bæta okkur. Sumt gengur vel hjá okkur en annað þurfum við að laga og við þurfum að vera með það klárt í tvo mánuði.“ Hafði Stefán að segja að lokum. Fram er með 21 stig í deildinni, sex stigum á eftir Stjörnunni sem situr í 3. sæti.

Hafdís Renötudóttir: Það er hættulegt að vera með svona marga tapaða bolta eins og í dag

„Vá, mér líður ótrúlega vel. Í fyrsta lagi að hafa náð tveimur stigum, það var mikilvægt í dag og mér líður líka vel afþví ég stóð mig vel. Og mér líður vel í þessu félagi því vörnin var ótrúlega góð fyrir framan mig. Ég er bara heilt yfir mjög sátt með stelpurnar og núna er bara landsliðsverkefni að taka við. Ég hlakka til næsta leiks.“ Sagði Hafdís eftir þennan magnaða leik sem hún átti í dag.

Mikið var um tapaða bolta beggja megin vallarins.

„Það er hættulegt að vera með svona marga tapaða bolta eins og í dag. Það er búið að vera svolítið svona okkar akkilesarhæll í vetur en sem betur fer náðu Haukar ekki að skora á móti okkar töpuðu boltum sem er kannski þess vegna sem við fórum með sigur í dag.“

„Við spiluðum góða vörn, það var góður talandi og bara markvarslan að sjálfsögðu líka afþví við vorum með svo marga tapaða bolta. En já ætli sigurinn sé ekki vörninni að þakka, númer eitt, tvö og þrjú.“ Sagði Hafdís að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira