Innherji

Agnar kemur inn í stjórn Ís­lands­banka sem full­trúi Banka­sýslunnar

Hörður Ægisson skrifar
Agnar starfar í dag sem sjálfstæður ráðgjafi en var áður sjóðstjóri skuldabréfa um margra ára skeið.
Agnar starfar í dag sem sjálfstæður ráðgjafi en var áður sjóðstjóri skuldabréfa um margra ára skeið.

Agnar Tómas Möller, sem starfaði síðast sem sjóðstjóri skuldabréfa hjá Kviku eignastýringu, kemur nýr inn í stjórn Íslandsbankabanka en bankinn á núna í viðræðum um samruna við Kviku. Er hann tilnefndur af Bankasýslunni, sem heldur utan um 42,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka, en stofnunin fer núna með þrjá stjórnarmenn í stað fjögurra áður.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar fyrr í kvöld kemur einnig fram að tilnefningarnefnd Íslandsbanka leggur til að Valgerður Skúladóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Sensa frá 2002, verði kjörin í stjórn bankans á aðalfundi hans um miðjan næsta mánuð. Tilnefningarnefnd bankans hefur það hlutverk að mæla með fjórum stjórnarmönnum í stjórnina, á meðan valnefnd Bankasýslunnar tilnefnir þrjá stjórnarmenn.

Miðað við fyrirliggjandi tillögur verða Agnar og Valgerður einu nýju stjórnarmennirnir. Koma þau í stað Herdísar Gunnarsdóttur, sem Bankasýslan hefur tilnefnt sem varamann, og Tanyu Zharov, aðstoðarforstjóra Alvotech, sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en hún hafði verið stjórnarmaður í eitt ár.

Aðrir stjórnarmenn bankans eru Finnur Árnason, sem verður áfram formaður stjórnar, Anna Þórðardóttir, Guðrún Þorgeirsdóttir, Ari Daníelsson og Frosti Ólafsson.

Agnar lét af störfum hjá Kviku eignastýringu um mitt árið í fyrra eftir að hafa starfað þar um fjögurra ára skeið. Þar stýrði hann meðal annars sérhæfða skuldabréfasjóðnum IFIF en honum var slitið í kjölfar þess að Agnar lét af störfum. Hann var á meðal stofnenda GAMMA Capital og starfaði þar á árunum 2009 til 2018 en áður var hann skuldabréfamiðlari hjá Kaupþingi.

Á aðalfundi Íslandsbanka, sem fer fram 16. mars næstkomandi, verður meðal annars lagt til að greiða út 12,3 milljarða í arð til hluthafa, sem samsvarar um 50 prósent af hagnaði bankans á árinu 2022.


Tengdar fréttir

Sam­runi bankanna hefði „mikil sam­legðar­á­hrif á kostnaðar­hliðinni“

Bankastjóri Íslandsbanka segir að samruni við Kviku sé „áhugavert tækifæri“ og myndi meðal annars hafa „mikil samlegðaráhrif á kostnaðarhliðinni“. Verði af sameiningu bankanna er gert ráð fyrir því að viðskiptin færu fram að öllu leyti með skiptum á hlutabréfum, fremur en að hluta með greiðslu reiðufjár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×