Lífið

Hræðilegur hluti af starfinu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Emma Thompson á rauða dreglinum á BAFTA verðlaunahátíðinni.
Emma Thompson á rauða dreglinum á BAFTA verðlaunahátíðinni. Getty/Tristan Fewings

Á hverju ári fer kvikmyndagerðarfólk í miklar herferðir þegar líða fer að verðlaunahátíðum. Emma Thompson er þó ekki hrifin af þessu og segir slíkar herferðir vera „hræðilegar.“

Leikkonan Emma Thompson hefur fengið fimm Óskarsverðlaunatilnefningar og unnið verðlaunin tvisvar. Árið 1992 hlaut hún Óskarinn sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í Howards End. Árið 1995 vann hún verðlaunin fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni fyrir handrit kvikmyndarinnar Sense and Sensibility.

Samkvæmt Guardian er Thompson eina manneskjan sem hefur unnið verðlaunin bæði sem leikari og handritshöfundur.

Emma Thompson með Óskarsverðlaunin sem hún vann árið 1993,Getty/Steven D Starr

Þrátt fyrir að Thompson hafi unnið tvenn Óskarsverðlaun þá er hún alls ekki mikið fyrir herferðina sem þeirri hátíð og öðrum fylgir. „Ég varð veik, virkilega alvarlega veik, fyrir það og á meðan. Mér fannst bara pressan og athyglin sem þessu fylgir of mikil,“ útskýrir leikkonan í hlaðvarpinu Radio Times Podcast.

„Þú hugsar með þér: „Ekki spyrja mig neinna spurninga eða láta mig tala um sjálfa mig.“ Þetta er hræðilegt.“

Thompson segir að hún hafi þróað með sér „eins konar ofnæmi“ fyrir þessu öllu saman. Það hefur án efa verið erfitt þar sem hún segir herferðirnar vera hluta af starfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×