Körfubolti

Sló þögn á salinn eftir ó­vænta frammi­stöðu McClung

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stjörnur NBA-deildarinnar vissu augljóslega ekki við hverju mátti búast þegar Mac McClung steig á svið.
Stjörnur NBA-deildarinnar vissu augljóslega ekki við hverju mátti búast þegar Mac McClung steig á svið. Alex Goodlett/Getty Images

Segja má að hinn óþekkti Mac McClung hafi komið, séð og sigrað í troðslukeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Þá fór Damian Lillard með sigur af hólmi í þriggja stiga keppninni.

Stjörnuhelgi NBA deildarinnar fer nú fram sem þýðir að í nótt fór troðslu- og þriggja stiga keppnin fram á meðan Stjörnuleikurinn sjálfur er annað kvöld, aðfaranótt mánudags.

Hinn 24 ára gamli McClung hefur aðeins spilað tvo leiki í NBA deildinni þrátt fyrir að hafa verið á mála hjá Chicago Bulls, Los Angeles Lakers og nú Philadelphia 76ers. Hann er hins vegar meiri æfingaleikmaður og er spilar aðallega fyrir varalið félaganna í G-deildinni.

Það breytti því ekki að McClung var kokhraustur í aðdraganda troðslukeppninnar og átti hann greinilega innistæðu fyrir því. McClung talaði um að eiga inni tvær troðslur sem höfðu ekki áður verið framkvæmdar í keppninni og miðað við viðbrögð áhorfenda í salnum – sem var fullur af leikmönnum úr NBA deildinni – og dómara þá hafði hann rétt fyrir sér.

Sjón er sögu ríkari og því má sjá allar troðslur McClung hér að neðan. Trey Murphy III úr New Orleans Pelicans varð að sætta sig við annað sætið.

Buddy Hield gaf Damian Lillard góða keppni í þriggja stiga keppninni en á endanum fór Lillard með sigur af hólmi. Hann hafði tvívegis áður tekið þátt en ekki farið með sigur af hólmi. Hann var því einkar ánægður í lok kvölds eftir að hafa tryggt sér sigurinn.

„Ég vildi vinna keppnina allavega einu sinni áður en ég hætti að spila. Þess vegna tók ég þetta af meiri alvöru en áður og því fór sem fór.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×