Innlent

„Þetta stefnir lífi fólks í hættu“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Hér má sjá biluðu ljósastaurana sem um ræðir.
Hér má sjá biluðu ljósastaurana sem um ræðir. Vísir/Vilhelm

Íbúi í Kópavogi hefur miklar áhyggjur af langvarandi ljósleysi í nágrenni við heimilið sitt. Börn gangi um í svartamyrkri og tímaspursmál sé hvenær slys verður.

Ljósleysið má rekja til bilunar í jarðstreng samkvæmt tilkynningu frá Kópavogsbæ. Götuljós á hluta Álfhólsvegar, Bjarnhólastígs, Digranesheiðar, Hátraðar og Víghólastígs, eru því óvirk.

Anna Baldvina Jóhannsdóttir, sem býr á Álfhólsvegi í Kópavogi, segir í samtali við fréttastofu að henni blöskri ástandið. Ekki sé búið að vera ljós í staurunum síðan fyrir síðustu jól.

Kópavogsbær kennir þó tíðarfari og frosti í jörð um það hversu illa gengur að finna bilunina. Þörf sé á sérhæfðum mælitækjum til að staðsetja bilunina nákvæmlega svo hægt sé að lágmarka jarðrask.

„Það eru fjórir göngustígar yfir götuna og þeir eru allir óupplýstir,“ segir Anna Baldvina sem hefur áhyggjur af því að ljósleysið valdi slysi. Sérstaklega hefur hún áhyggjur af börnum í dökkum fatnaði án endurskinsmerkja.

Þá gefur Anna Baldvina ekki mikið fyrir svörin frá Kópavogsbæ. „Það er ansi seint um svör alltaf hjá Kópavogsbæ. Það er bara þannig,“ segir hún.

„En þetta er stórhættulegt og þetta stefnir lífi fólks í hættu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×