Golf

Tiger gaf Thomas túrtappa

Sindri Sverrisson skrifar
Það fór vel á með Tiger Woods og Justin Thomas á mótinu sem Tiger sjálfur heldur, The Genesis Invitational, í gær.
Það fór vel á með Tiger Woods og Justin Thomas á mótinu sem Tiger sjálfur heldur, The Genesis Invitational, í gær. Getty/Cliff Hawkins

Tiger Woods olli fjölmörgum stuðningsmönnum sínum ekki vonbrigðum á fyrsta hring The Genesis Invitational mótsins í golfi. Gjöf sem hann gaf Justin Thomas á hringnum vakti þó mesta athygli.

Tiger er gestgjafi mótsins sem er hluti af PGA-mótaröðinni, en það fer fram í Los Angeles. Áhorfendur kyrjuðu nafn hans í lok dags eftir að hann hafði fengið fugl á síðustu þremur holunum og endað á 69 höggum, eða -2 höggum.

Tiger er greinilega ekki drauður úr öllum æðum og átti ítrekað betri teighögg en Justin Thomas og Rory McIlroy, og eftir að hafa slegið lengra en Thomas af níunda teig gaf hann hinum 29 ára gamla Thomas athyglisverða gjöf.

Tiger laumaði nefnilega túrtappa í lófa Thomas, hvað sem það átti svo sem að tákna, og glotti einnig til Thomas eftir að hafa sett niður lokapúttið sitt við mikinn fögnuð viðstaddra.

Eftir hringinn mátti heyra á McIlroy að hann væri ekki ánægður með hvernig Tiger tókst ítrekað að slá lengra en kollegar sínir af teig.

„Ég þarf að taka til starfa á æfingasvæðinu. Ég stillti dræverinn minn til að bæta við fláa í byrjun vikunnar en gæti þurft að breyta honum til baka aftur. Ég er ekki ánægður með að hann sé að slá lengra en ég,“ sagði McIlroy.

Tiger er í 27. sæti eftir fyrsta hring en Thomas lék höggi betur og er í 14. sæti. McIlroy er svo á -4 höggum í 7. sæti.

Max Homa og Keith Mitchell eru efstir á -7 höggum en Jon Rahm einn í 3. sæti á -6 höggum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×