Enski boltinn

„Rashford er einn af bestu sóknarmönnum í Evrópu“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Að springa út.
Að springa út. vísir/getty

Erik ten Hag, stjóri Man Utd, hrósaði Marcus Rashford í hástert eftir 0-2 sigur liðsins á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Rashford hefur verið magnaður í liði Man Utd að undanförnu; skorað fimmtán mörk í átján leikjum eftir að keppni hófst að nýju eftir HM í Katar í desember.

„Hann verður að halda áfram að vera svona hungraður því annars er hættan á að þú slakir á. Þegar hann er í þessum gír getur hann haldið áfram að skora, leik eftir leik,“ segir Ten Hag.

„Við þurfum að halda áfram að þjarma að honum en að lokum er þetta undir honum komið. Um leið og hann missir einbeitinguna mun hann hætta að skora, það er klárt.“

Ten Hag tók við stjórnartaumunum á Old Trafford í sumar og hafði markmið um að ná meiru út úr Rashford sem hefur mest skorað 22 mörk í öllum keppnum fyrir Man Utd á einu tímabili. Það gerði hann í 44 leikjum tímabilið 2019/2020 en Rashford er nú þegar kominn með 21 mark í 34 leikjum.

„Hann er klárlega einn af bestu sóknarmönnum í Evrópu. Hann hefur hæfileikana og ég hef verið sannfærður um það síðan ég kom hingað. Ég var mjög spenntur fyrir því að vinna með honum og taldi mig geta náð meiru út úr honum.“

„Hann hefur svo marga góða eiginleika og mikla hæfileika og ég tel að hann geti bætt sig enn meira. Þegar hann leggur mikið á sig mun hann skora því hann getur skorað með báðum fótum og höfðinu,“ segir Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×