Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Stjarnan 33-33 | Jafn­tefli í dramatískm leik

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Haukar voru yfir þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka.
Haukar voru yfir þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka. vísir/diego

Haukar og Stjarnan mættust að Ásvöllum í kvöld í fyrsta leik 15. umferðar í Olís-deildinni. Leikurinn var jafn og spennandi. Stjarnan tryggði sér eitt stig út úr leiknum með síðasta skoti leiksins af vítalínunni en liðið hafði verið skrefi á eftir Haukum allan seinni hálfleikinn. Lokatölur 33-33.

Fyrstu sex skot leiksins fóru öll í súginn, annað hvort varin eða fram hjá. Fyrsta mark leiksins kom því ekki fyrr en eftir fjögurra mínútna leik og var það heimamanna. Stjörnumenn voru þó fljótir að koma sér í forystu og leiddu leikinn fyrstu tuttugu mínútur leiksins. Þá komust Haukar í fyrsta skipti aftur yfir, staðan 10-9.

Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, kom inn á eftir rúmlega stundarfjórðung fyrir Matas Pranckevicius. Fyrsti leikur Arons Rafns í háa herrans tíð eftir höfuðmeiðsli og skartaði hann því svörtum hjálmi. Stórt atvik kom einmitt upp eftir að Aron Rafn kom inn á. Í stöðunni 12-12, á 25. mínútu leiksins, fær Stjarnan víti og Starri Friðriksson stillir sér upp til að taka vítið. Hann reynir að setja boltann yfir höfuð Arons Rafns með lausu skoti. Ekki heppnast það betur en svo að boltinn endar í höfði Arons Rafns sem stóð grafkyrr. Eins og laganarbókstafur segir til um hlaut Starri rautt spjald.

Leikurinn dofnaði eilítið eftir þetta atvik. Haukar fóru á endanum með eins marks forystu inn í hálfleikshléið, staðan 16-15.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og tóku öll völd á vellinum. Bjuggu þeir sér til fjögurra marka forystu á fyrstu sex mínútum síðari hálfleiks. Haukar héldu muninum á milli liðanna í þrem til fjórum mörkum þangað til að um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Stjarnan kom sér þá í seilingarfjarlægð frá Haukum og urðu lokamínúturnar æsispennandi.

Gunnar Steinn Jónsson, leikstjórnandi Stjörnunnar, jafnaði leikinn úr vítakasti þegar u.þ.b. mínúta var eftir af leiknum. Haukar skoruðu um hæl og fékk því Stjarnan lokasókn síðustu 30 sekúndurnar til þess að jafna leikinn.

Sú lokasókn gekk brösuglega, vörn Hauka náði að stoppa flæðið í sóknarleiknum ítrekað þannig að Stjarnan var stöðugt að taka fríköst. Þegar leiktíminn var að fara renna út reyndi Tandri Már Konráðsson, leikmaður Stjörnunnar, að taka fríkast en Stefán Rafn Sigurmannsson, leikmaður Hauka, braut á honum um leið og leiktíminn rann út. Dómarar leiksins fóru beint í VAR-sjánna á þessu augnabliki. Niðurstaðan víti og tveggja mínútna brottvísun á Stefán Rafn þar sem hann var staðsettur allt of nálægt Tandra Má þegar fríkastið var tekið.

Gunnar Steinn skoraði úr vítinu og skildu liðin því á jafnan hlut.

Af hverju fór jafntefli?

Stjörnumenn sýndu mikinn baráttuvilja á lokamínútum leiksins sem skilaði þeim jafnteflinu. Haukar hins vegar voru með pálmann í höndunum nánast allan síðari hálfleik en koðnuðu niður á lokakaflanum þegar allt var undir, eitthvað sem einkennir lið í krísu.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði Hauka stóð Andri Már Rúnarsson upp úr en hann dreif sóknarleik liðsins áfram. Átta mörk hjá Andra Má og fimm stoðsendingar.

Tandri Már Konráðsson var bestur í liði Stjörnunnar en hann skoraði einnig átta mörk og gaf fimm stoðsendingar.

Svo má nefna tvo leikmenn Hauka, þá Aron Rafn Eðvarðsson og Þráinn Orra Jónsson sem báðir spiluðu fyrsta leik sinn á tímabilinu eftir löng meiðsli. Báðir tveir skiluðu fínni frammistöðu í kvöld.

Hvað gekk illa?

Adam Haukur Baumruk, skytta Hauka, átti langt í frá einhvern stjörnuleik sóknarlega í kvöld. Eitt mark úr sex skotum, Haukar verða að fá meira frá honum á sóknarenda vallarins til þess að komast á skrið í Olís-deildinni.

Hvað gerist næst?

Bæði lið leika næsta leik sinn í 8-liða úrslitum Powerade bikarsins. Haukar fá Hörð í heimsókn 15. febrúar og Stjarnan fær Val í heimsókn þann 17. febrúar.

Hefði viljað fá tvö stig

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka.Vísir/Diego

„Ég er bara rosalega ánægður með mjög margt. Bara hefði viljað fá tvö stig,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, beint eftir leik í kvöld.

Ásgeiri Erni fannst nokkrir hlutir vera ábótavanir í leik liðs síns í kvöld gegn Stjörnunni.

„Mér fannst við koma mjög lélega inn í leikinn, mér fannst við ekki góðir í byrjun og látum verja frá okkur rosa mikið. Það vantar alla ákefð varnarlega og sýnum ekkert spirit til að byrja með. Svo kemur það aðeins upp og þá förum við inn í leikinn og svo finnst mér detailarhérna varnarlega í lokinn sem að ég er ekkert rosa ánægður með.“

Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður Hauka, spilaði í dag fyrsta leik sinn á tímabilinu. Innkoma hans hefur mikla þýðingu fyrir Hauka.

„Frábær, bara frábær markmaður og sýndi það í dag. Ekki búinn að spila í einhverja 10 mánuði, ég veit ekki hvað það er, og það hefur rosalega mikla þýðingu fyrir okkur.“

Næsti leikur Hauka er gegn Herði frá Ísafirði í 8-liða úrslitum Powerade bikarsins. Haukar ætla ekki að fara titlalausir í gegnum tímabilið að sögn Ásgeirs Arnars.

„Við ætlum að fara alla leið,“ sagði Ásgeir að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira