Erlent

Æðsti leið­togi Íran sagður hafa náðað tug­þúsundir fanga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maður skrýddur mynd af æðsta leiðtoganum.
Maður skrýddur mynd af æðsta leiðtoganum. epa/Abedin Taherkenareh

Æðsti leiðtogi Íran, Ayatollah Ali Khamenei, er sagður hafa náðað tugþúsundir fanga, þar af fjölda sem var handtekinn fyrir að mótmæla gegn stjórnvöldum. Ríkismiðlar segja náðanirnar háðar skilyrðum.

Mannréttindasamtök áætla að um það bil 20 þúsund manns hafi verið handtekin í mótmælum sem brutust út í kjölfar þess að ung kona, Mahsa Amini, lést í haldi lögreglu eftir að hafa verið handtekin fyrir að bera ekki höfuðklút eins og lög gera ráð fyrir.

Fleiri en 500 eru sagðir hafa látið lífið í mótmælunum, þar af 70 undir lögaldri.

Leiðtogin er sagður hafa tekið ákvörðun sína eftir að hafa fengið erindi frá yfirmanni dómstóla landsins, sem sagði ungt fólk í meirihluta meðal fangelsuðu sem hefði verið afvegaleitt af erlendum áhrifum og áróðri.

Fjöldi hefði lýst eftirsjá og beðist fyrirgefningar.

Náðanirnar ná ekki til þeirra sem hafa verið sakaðir um njósnir eða skemmdarverk en þeir sem hljóta náðun verða látnir skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir sjái eftir því sem þeir gerðu. Þeir sem eru í haldi vegna mótmæla en hafa ekki verið dæmdir eiga þess einnig kost að verða náðaðir.

Iran Human Rights í Osló áætla að um hundrað manns hafi verið dæmdir til dauða. Fjórir hafa þegar verið teknir af lífi í tengslum við mótmælin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×