Innlent

Óttast að illa verði komið fyrir húsvernd með sameiningu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Minjastofnun mun heyra undir nýja og stærri stofnun; Náttúruverndar-og minjastofnun. Sviðsstjóra hjá Minjastofnun finnst að stofnunin eigi að heyra undir menningarmálaráðuneytið.
Minjastofnun mun heyra undir nýja og stærri stofnun; Náttúruverndar-og minjastofnun. Sviðsstjóra hjá Minjastofnun finnst að stofnunin eigi að heyra undir menningarmálaráðuneytið.

Sviðsstjóri hjá Minjastofnun er hræddur um að illa verði komið fyrir húsvernd í landinu ef Minjastofnun verður undirsvið í mun stærri stofnun. Ekki hafi verið hlustað á sjónarmið starfsfólks Minjastofnunar í sameiningarferlinu. Minjavernd eigi miklu frekar heima í ráðuneyti menningarmála.

Umhverfisráðherra tilkynnti á dögunum um að ráðist verði í umfangsmikla sameiningu ríkisstofnana en tíu stofnanir sem nú heyra undir ráðuneytið verða að þremur. Minjastofnun er á meðal þeirra stofnana sem breytingin snertir. Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun, óttast þessa vegferð stjórnvalda.

„Það hefur ekki verið hlustað mikið á okkar sjónarmið. Við höfum verið að leggja áherslu á faglega sérstöðu þessarar greinar sem er allt annars eðlis en aðrar stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið. Það má ekki gleyma því að húsvernd og minjavarsla í landinu er hluti af menningararfi þjóðarinnar. Byggingalist og menningararfur heyrir undir menningarmálaráðuneytið og því er í rauninni óskiljanlegt að við skulum vera sett í skúffu með stofnunum sem eru að sinna faglega séð og vísindalega séð allt annars konar verkefnum.“

Pétur segir að ekki hafi verið tekið mið af ábendingum þeirra við undirbúningsvinnu sameiningar.

„Það er mikil óvissa í kringum þetta mál allt saman en það er mikið í húfi ef þetta fer á versta veg og þá er ég nú til dæmis að vísa í umræðu síðustu daga um hvernig fór fyrir vottun og gæðaeftirliti í íslenskum byggingaiðnaði þar sem sú stofnun sem annaðist rannsóknir og eftirlit á þeim vettvangi var lögð niður og afleiðingar af því blasa við,“ segir Pétur og bætir við.

„Það er búið að vera að vinna að húsverndarmálum í nærri hálfa öld og ná gríðarlegum árangri. Sá málaflokkur hefur hingað til haft ákveðið sjálfstæði og ákveðið vægi í íslenskri menningu. Við óttumst að þetta svið verði bara eitthvað undirsvið í miklu stærri stofnun þar sem öll athygli verður á allt önnur mál. Þá er ég ansi hræddur um að það verði illa komið fyrir húsvernd í landinu og sama á í rauninni við um aðra þætti sem minjastofnun starfar að; það er að segja fornminjarnar.“

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti sameiningaráform á fundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudag.Vísir/ArnarHalldórs

Pétur segir að starfsfólk Minjastofnunar hafi efasemdir og spurningar sem verði að svara.

„Menningarverðmæti þjóðarinnar eru í húfi og við verðum að fá skýr svör frá stjórnvöldum um hvað þau eru að hugsa með þessari vegferð. Það er gott og gilt að sameina stofnanir og hagræða hjá ríkinu – það er enginn hér sem hefur neitt á móti því – en það verður líka að virða faglegt sjálfstæði ólíkra greina og það er líka mikilvægt að stjórnsýsla menningararfsins hafi nægilega mikið sjálfstæði til að geta tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á því sviði en ef við erum sameinuð og með yfirmann stofnunar úr einhverri allt annarri átt þá náttúrulega missum við það vægi,“ segir Pétur.


Tengdar fréttir

Veður­stofu­stjóri í skýjunum

Tíu stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið verða að þremur í umfangsmikilli sameiningu sem umhverfisráðherra boðar. Löngu tímabært að fækka stofnunum segir forstjóri Veðurstofunnar.

Tíu stofnanir verða að þremur

Áform eru um að sameina tíu stofnanir sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið í þrjár stofnanir. Ráðherra segir að markmiðið með sameiningunni sé að efla stofnanir ráðuneytisins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×