Erlent

Stað­fest að 87 hafi látist í sprengingunni í Pakistan

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin beindist sérstaklega að lögreglumönnum en moskuna er að finna innan öryggissvæðis lögreglunnar í Peshawar.
Árásin beindist sérstaklega að lögreglumönnum en moskuna er að finna innan öryggissvæðis lögreglunnar í Peshawar. EPA

Yfirvöld í Pakistan hafa nú staðfest að 87 hafi látist í árás sjálfsvígssprengjumanns í mosku í pakistanska héraðinu Peshawar í gær.

Árásin beindist sérstaklega að lögreglumönnum en moskuna er að finna innan öryggissvæðis lögreglunnar og er rannsókn hafin á því hvernig árásarmaðurinn komst inn á svæðið.

BBC segir frá því að forsætisráðherra Pakistans og fleiri leiðtogar hafi fordæmt árásina sem er ein sú mannskæðasta í landinu í mörg ár.

Leiðtogi pakistanskra Talibana hefur neitað því að þeir beri ábyrgð á árásinni eftir að herforingi úr þeirra röðum fullyrti slíkt skömmu eftir árásina.

Shehbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, segir að það sé markmið hryðjuverkamanna að framkalla ótta meðal þeirra sem helga lífi sínu að tryggja öryggi í Pakistan. Sharif hefur sömuleiðis lýst yfir þjóðarsorg í landinu.

Björgunarlið er enn að störfum í moskunni þar sem verið er að leita að fólki í rústum byggingarinnar.

Talsmaður heilbrigðisyfirvalda segir að hundrað hið minnsta hafi særst í árásinni, en alls voru milli þrjú og fjögur hundruð lögreglumenn á staðnum þegar árásin var gerð.

Pakistanskir Talibanar – sem tengist ekki talibanastjórninni í Afganistan með beinum hætti – bundu enda á vopnahlé í Pakistan í nóvember og hefur árásum í landinu fjölgað síðan.


Tengdar fréttir

Þak mosku hrundi er maður sprengdi sig í loft upp

Minnst 27 eru látnir og 147 særðir eftir sprengjuárás í mosku í Peshawar í Pakistan í morgun. Maður er sagður hafa sprengt sig í loft upp á bænartíma þegar moskan var full af fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×