Neytendur

Á­skriftir að knatt­spyrnu­út­sendingum hækka um allt að 33 prósent

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Verðið á Símanum Sport hækkar umtalsvert um mánaðamótin.
Verðið á Símanum Sport hækkar umtalsvert um mánaðamótin. AP/Dave Thompson

„Kostnaður vegna samninga við Premier League hefur hækkað, veiking krónunnar hefur mjög neikvæð áhrif og annar kostnaður til dæmis aðföng, laun, útsendingarkostnaður og fleira hefur hækkað.“

Þetta hefur Morgunblaðið eftir Guðmundi Jóhannssyni, samskiptafulltrúa Símans, um verðhækkun á áskriftarleiðinni Síminn Sport, sem fer úr 4.900 krónum í 6.500 krónur um mánaðamótin. Um er að ræða 33 prósenta hækkun.

Ekki erum að ræða einu verðhækkunina sem knattspyrnuunnendur mega sæta um þessar mundir en áskriftargjaldið fyrir Viaplay Total, sem inniheldur útsendingar frá ýmsum knattspyrnuleikjum, hefur verið hækkað úr 2.699 krónum í 2.999 krónur.

Síminn Sport sýnir frá ensku úrvaldsdeildinni í knattspyrnu en Stöð 2 Sport og Viaplay frá Meistaradeildinni, bikarkeppnunum, Evrópudeildinni og Sambandsdeildinni. 

Engar verðhækkanir hafa verið tilkynntar hjá Stöð 2 Sport en samkvæmt Morgunblaðinu hefur heildarverðið fyrir áskriftir hjá Símanum Sport, Viaplay og Stöð 2 Sport hækkað úr 9.089 krónum í 13.489 krónur frá haustinu 2021.

Vísir og Stöð 2 Sport eru í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×