Handbolti

Stjarnan í hum­átt á eftir topp­liðunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lena Margrét fór mikinn í liði Stjörnunnar í dag.
Lena Margrét fór mikinn í liði Stjörnunnar í dag. Vísir/Diego

Stjarnan lagði Selfoss með fjögurra marka mun, 26-22, í Olís deild kvenna í handbolta. Sigur Stjörnunnar þýðir að liðið er þremur stigum á eftir toppliðum ÍBV og Vals.

Stjarnan var alltaf skrefi á undan en þó Selfyssingar hafi aðeins unnið tvo leiki á leiktíðinni þá gaf liðið lítið sem ekkert eftir í fyrri hálfleik. Munurinn í hálfleik var tvö mörk, staðan þá 12-10.

Stjörnukonur náðu fljótlega upp fjögurra marka forystu í síðari hálfleik og þá var ekki aftur snúið. Lokatölur í Garðabænum 26-22.

Helena Rut Örvarsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir voru allt í öllu í liði Stjörnunnar. Sú fyrrnefnda var markahæst með 12 mörk og Lena Margrét kom þar á eftir með 10 mörk. Ótrúlegur leikur hjá þeim stöllum. Darija Zecevic varði 12 skot í markinu og var með 35 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Katla María Magnúsdóttir skoraði 9 mörk í liði Selfyssinga. Í markinu varði Cornelia Hermansson 14 skot og var með 36 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Stjarnan er í 3. sæti Olís deildar kvenna með 19 stig á meðan Selfoss er í 7. sæti með 4 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×